Nú er allt að fara af stað í frisbígolfinu og nóg framundan.

Nú er rétti tíminn til að panta og undirbúa hönnun og uppsetningu á nýjum frisbígolfvelli fyrir sumarið. Nú eru komnir yfir 90 vellir um allt land og vinsældir frisbígolfsins halda áfram að aukast enda frábær íþrótt fyrir alla aldurshópa og góð hreyfing sem hægt er að stunda allt árið.
Hafðu strax samband við þitt sveitarfélag og hvettu þau til dáða, það er ekki seinna vænna en að fjárfesta í heilsunni og setja upp völl. Hafið endilega samband við okkur hjá ÍFS á folf@folf.is ef ykkur vantar aðstoð, ráðgjöf eða hönnun.
Frisbígolf – einfalt, ódýrt og alveg ótrúlega vinsælt!
Nýlega var kynnt nýtt merki PDGA – Professional Disc Golf Association sem eru þau samtök sem halda utan um skipulag frisbígolfs í heiminum s.s. reglur, mótahald, stigagjöf ofl.
Samkvæmt skýringum sem koma frá PDGA þá táknar nýja merkið nýtt upphaf og í því kemur fram útlit fljúgandi disks, sjóndeildarhringur jarðar, sólarupprás nýs dags og körfukeðjur sem tákna meðal annars tengingar frisbígolfssamfélagsins.
Hér má sjá nokkur af gömlu merkjum PDGA.
Nú erum við Íslendingar farin að finna fyrir aukinni birtu og lengri daga enda vorið handan við hornið. Við sjáum að flestir folfvellir eru mikið notaðir í vetur þó að snjór og hálka hafi gert mörgum lífið leitt enda auðvelt að spila íþróttina alla mánuði ársins og körfurnar grípa diskana vel svo fremi sem þær standi upp úr snjónum. Góður fatnaður og mannbroddar geta komið sér vel þessa dagana.
Vetrarfolf er auðveldara en margir halda því margir vellir eru mjög aðgengilegir allt árið. Heilsársteigar hjálpa mikið því þeir eru góðir í snjó og hálku og standa oft upp úr snjór, drullu og klaka. Ef spilað er í snjó er gott að hafa litaða diska og ef laus þurr snjór er á vellinum er frábært ráð að líma 1,5-2 metra pakkaborða (jólaborða) neðan í diskinn sem gerir auðveldara að finna hann. Drífið ykkur í úlpurnar og takið hring í þessum skemmtilegu vetraraðstæðum sem nú eru á Íslandi.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum það milda haust sem leikið hefur landið undanfarnar vikur og folfarar hafa nýtt tækifærið vel því flestir vellir eru vel notaðir þessa dagana. Við hvetjum alla til þess að skella sér út og taka hring en það er einstakt að kasta diskunum þegar sólir er lágt á lofti.
Haustin eru alltaf fallegur tími á frisbígolfvöllunum, sérstaklega þeim sem eru komnir með heilsársteiga. Frisbígolf er heilsársíþrótt ólíkt mörgum öðrum sumarafþreyingum og í raun það eina sem breytist er aukinn klæðnaður. Nú eru allir vellir þaktir laufblöðum og barrnálum og því um að gera að drífa sig hring með vinunum og halda þannig við þeirri færni sem náðist í sumar. Nú eru komnir yfir 90 vellir um allt land og þeir nýjustu voru að opna í Borgarnesi og á Kjalarnesi..
Um síðustu helgi lauk Gullmótaröðinni með Þorramóti FGR sem haldið var á Gufunes- og Grafarholtsvelli en mótið var fimmta og síðasta mótið í mótaröðinni. Veðrið lék við keppendur og mikil spenna var í flestum flokkum. Sigurvegarar í heildarkeppninni eru eftirfarandi en þrjú af fimm bestu mótunum gilda til stiga.
Opinn meistaraflokkur – MPO – Ellert Georgsson
Meistaraflokkur kvenna – FPO – Kolbrún Mist Pálsdóttir
Stórmeistaraflokkur 40+ – MP40 – Runólfur Helgi Jónasson
Stórmeistaraflokkur 50+ – MP50 – Haukur Dýrfjörð
Almennur flokkur 1 – MA1 – Friðfinnur Tjörvi Ingólfsson
Almennur flokkur kvenna 1 – FA1 – Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri – MJ18 – Trausti Freyr Sigurðsson