Nú er völlurinn í Hrísey tilbúinn til spilunar og eins og sjá má á kortinu hér að ofan er þetta 9 brauta völlur með tveimur teigum á hverri braut. Við hvetjum auðvitað alla folfara til þess að koma við í Hrísey og spila þennan nýjasta völl okkar sem mun vera mjög skemmtilegur með lengstu braut upp á 94 metra. Byrjunarteigur er við gamla skólann.
Góð sumarbyrjun
Nú er sumarveðrið skollið á og allir folfvellir orðnir fullir af áhugasömum spilurum. Margir orðnir spenntir eftir langan vetur. Nýju vellirnir eru allir í vinnslu, sumir komnir í gagnið (Hrísey og Mosfellsbær) en aðrir í undirbúningi. Við reiknum með því að þeir verði allir klárir í júlí. Völlurinn á Akranesi verður einnig stækkaður upp í 9 brautir en Garðalundur er frábær staður fyrir folf.
Völlurinn í Gufunesi verður tekinn í gegn í sumar. Bæði verður vellinum breytt mikið en eins verður öllum gömlu körfunum skipt út fyrir nýjar. Settir verða þrír teigar á hverja braut (rauðir-hvítir-bláir) og lagað verður undirlagið á þeim öllum. Settar verða fleiri merkingar þannig að nýjir spilarar eigi betur með að rata um völlinn. Starfsmenn Gufunesbæjar ætla að sjá um sláttinn í sumar enda veitir ekki af.
Mosfellsbæjarvöllurinn tilbúinn
Nú er völlurinn i Mosfellsbæ tilbúinn og öllum opinn til notkunar. Völlurinn er í svokölluðum Ævintýragarði sem er svæði sem búið er að hanna sem framtíðar útivistar- og skemmtisvæði. Auðvelt er að komast á hann með því að leggja bílnum við gömlu sundlaugina/íþróttahúsið og fylgja göngustíg á völlinn. Tveir teigar eru á vellinum, rauðir sem eru auðveldari og tilvaldir fyrir byrjendur og hvítir sem eru erfiðari og hentugir fyrir vanari spilara. Hægt er að sækja vallarkort hér á síðunni undir flokknum “vellir”.
10 nýir vellir
Nú liggur fyrir staðfest að það koma amk. 10 nýir vellir í sumar og í lok sumars verða þeir því orðnir 17 talsins. Hér er kort með staðsetningu valla til þess að menn geti skipulagt sumarfríin sín betur með fjölskyldunni í sumar!
Mismunandi er hvenær vellirnir verða spilahæfir og margt sem getur haft þar áhrif á. Okkar von er að þeir verði flestir tilbúnir um miðjan júlí.
Þetta eru nýju vellirnir: (dagsetningar eru ágiskanir)
Reykjavík – Fossvogur (seinnipart júlí)
Reykjavík – Laugardalur(seinnipart júlí)
Reykjavík – Breiðholt (seinnipart júlí)
Mosfellsbær – Ævintýragarðurinn (tibúinn)
Hafnarfjörður (snemma í júní)
Hrísey (snemma í júní)
Akureyri – Hamarkotstún (miðjan júlí)
Húsavík (miðjan júlí)
Flúðir (fyrri part júní)
Apavatn (júní)
Næsta mánaðarmót
Maí mánaðarmótið verður haldið fimmtudaginn 22. maí á Gufunesvellinum og hefst mótið kl. 19. Keppt verður í öllum flokkum og skráning hefst á vefnum föstudaginn 16. maí. Við hvetjum alla til þess að taka þátt.
Gott folfsumar framundan
Nú er að skýrast betur hvort og hvar nýjir vellir koma upp í sumar. Fyrir liggur ákvörðun um 8 velli sem bætast við þá 7 sem fyrir eru. Einnig verða gerðar endurbætur á völlunum á Klambratúni og Gufunesi.
Nýju vellirnir eru:
Í Reykjavík; Fossvogur, Laugardalur og Breiðholt, Mosfellsbær, Hafnarfjörður, við Apavatn, á Flúðum og í Hrísey. Á Klambratúni og Gufunesi verða settir þrír teigar við hverja körfu auk þess sem öllum körfum í Gufunesi verður skipt út fyrir nýjar. Stefnt er að því að öllum framkvæmdum ljúki í júlí. Það verður því gaman fyrir alla folfara í sumar.
Fyrsta mánaðarmótið
Fimmtudaginn 17. apríl verður fyrsta mánaðarmót sumarsins haldið og er mæting kl. 13. Keppt verður eftir hönnun nýs vallar í Fossvogsdalnum en settar verða upp ferðakörfur þar sem völlurinn verður ekki settur formlega upp fyrr en í sumar. Þægilegasta leiðin er að koma niður Árland og beygja þar til hægri á bílastæði sem þar eru.
Árgjald 2014
Nú þegar fyrsta mót sumarsins er að skella á er rétt að minna á að félagsaðild ÍFS gefur afslátt af mótum auk annara fríinda. Árgjaldið er aðeins 2.000 krónur og fyrir eldri félaga er nóg að millifæri á reikning félagsins. Nýjir félagar þurfa að ská sig inn á forsíðu folf.is
Millifærsluupplýsingarnar eru:
Íslenska frisbígolfsambandið kt. 450705-0630, reikningur: 513-14-503326
Reykjavík verður betri
Í nýafstöðnum kosningum á vef Reykjavíkurborgar, Betri hverfi, var samþykkt að setja upp á þessu ári þrjá nýja frisbígolfvelli í Reykjavík auk þess að gera endurbætur á vellinum okkar í Gufunesi. Nýju vellirnir verða allir 9 körfu og munu koma í Breiðholti (við Fella- og hólakirkju), í Fossvogsdal og í Laugardal (fyrir ofan gömlu þvottalaugarnar). Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær vellirnir verða settir upp annað en það verður klárað á þessu ári. Þetta eru auðvitað frábærar fréttir fyrir okkur folfara og stefnir í skemmtilegt folfsumar.
Aðalfundur ÍFS
Aðalfundur ÍFS var haldinn 13. mars sl. og fór vel fram. Fyrir utan hefðbundin aðalfundarstörf var farið í gegnum verkefnin framundan en þar ber hæst aukinn áhugi á íþróttinni hérlendis og möguleg aukning valla á þessu ári ef allt gengur eftir.
Í stjórn voru kosnir Birgir Ómarsson formaður, Kristinn Arnar Svavarsson formaður mótanefndar og Þorsteinn Óli Valdimarsson.