Nú þar sem sumrinu er lokið og dagur styttist tekur skammdegisfrisbígolfið við. Við notum sjálflýsandi diska og ljósabúnað til að berjast við rökkrið, en við hljótum öll að geta sammælst um að ákjósanlegast væri þó að birtunnar nyti lengur við.
Nú liggur fyrir Alþingi þverpólitísk þingsályktunartillaga um að færa klukkuna á Íslandi aftur um eina klukkustund allt árið. Fyrir þessu liggja auðvitað ýmsar góðar og gildar ástæður, en þær miða flestar að því að “flýta sólarupprás” ef svo má að orði komast, og fjölga þar með þeim dögum þar sem við Íslendingar getum skundað til vinnu í björtu, enda þykir það hafa merkjanleg áhrif á árstíðabundið lundarfar.
Óhjákvæmilegu afleiðingar þessa, sem þó sjaldnar dúkka upp í umræðunni, eru þó þær að ef við færum klukkuna til að þessu marki þá styttum við daginn að sjálfsögðu í seinni endann, og flýtum sólsetri þar af leiðandi um þennan sama klukkutíma.
Fyrir okkur, sem og aðra sem kjósa að stunda útiveru í lok vinnudags, þýðir þetta að síðdegisbirtan hverfur á veturna, og frisbígolftímabilið þar sem hinn almenni dagvinnumaður getur leikið á virkum dögum styttist um ca. 2 mánuði að ári, einn að hausti, og annan að vori.
Hér má vera að samfélagslegur ávinningur sé það mikill að þessi rök vegi léttvægt, en miðað við hversu óhagstætt tíðarfarið hefur verið okkur síðustu tvö sumur, væri afar dapurt ef við útivistarfólk töpuðum sömuleiðis þessum tíma.
Fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar:
http://www.althingi.is/altext/144/s/0421.html
http://mennta.hi.is/vefir/staerdfraedi/lif_og_starf/solargangur.htm