Nú eru óvenjulegir tímar og daglegt líf flestra hefur raskast verulega. Margir dvelja meira heimavið en þeir eru vanir og regluleg hreyfing er ekki sami hluti af daglegu rútínunni eins og að fara í sund, ræktina, spila badminton eða stunda aðra skipulagða hreyfingu. Það er því mikilvægt að fólk komi sér upp nýjum venjum, drífi sig út í göngutúra, fjallgöngur, hjólatúra og annað sem kemur blóðinu á hreyfingu.
Frisbígolf er eitt af því skemmtilegra sem fólk getur stundað í þessu ástandi enda fellur það vel innan þeirra marka sem sóttvarnaryfirvöld heimila. Þetta er góð hreyfing utandyra sem reynir bæði á huga og hönd og við hvetjum alla til að útvega sér frisbígolfdisk, (ef þeir ekki eiga hann nú þegar) og skella sér á einhvern þeirra 70 frisbígolfvalla sem eru hér á landi. Það eru bókstaflega vellir út um allt en nýjasti völlurinn var að opna í Grímsey í síðustu viku. Á höfuðborgarsvæðinu eru 13 vellir og það besta er að það kostar ekkert að spila á þessum völlum og þeir eru opnir allt árið.Frisbígolf er fyrir allan aldur og kyn, ekki þarf að bóka rástíma heldur að mæta bara á fyrsta teig og byrja að kasta. Þú getur séð alla vellina undir flipanum “vellir“.
Við hvetjum auðvitað alla til þess að huga að persónulegum sóttvörnum, spila ekki í stórum hópum og snerta ekki búnað annarra. Góða skemmtun.