Um helgina fór fram Íslandsmótið í frisbígolfi en mótið var það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi hingað til og rúsínan í pylsuenda þessa frábæra folfsumars sem nú er að líða. Alls skráðu 144 keppendur sig til þátttöku og biðlisti var orðinn langur þegar honum var lokað. Keppt var á Gufunesvelli í alls 11 flokkum og var mikil spenna í þeim flestum fram á síðustu brautir. Í opnum meistaraflokki náði Blær Örn Ásgeirsson að verja titilinn en nýr meistari var krýndur í Meistaraflokki kvenna þegar María Eldey Kristínardóttir tryggði sér sigur eftir bráðabana.
Íslandsmeistarar 2021 í öllum flokkum
Opinn Meistaraflokkur (MPO): Blær Örn Ásgeirsson
Meistaraflokkur kvenna (FPO): María Eldey Kristínardóttir
Stórmeistaraflokkur 40+ (MP40): Árni Sigurjónsson
Stórmeistaraflokkur 50+ (MP50): Birgir Ómarsson
Almennur flokkur 1 (MA1): Kristinn Þorri Þrastarson
Almennur flokkur kvenna 1 (FA1): Margrét Traustadóttir
Almennur flokkur 2 (MA2): Haukur Arnarson
Almennur flokkur kvenna 2 (FA2): Harpa María Reynisdóttir
Almennur flokkur 3 (MA3): Ægir Tómasson
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri (MJ18): Andri Fannar Torfason
Barnaflokkur 12 ára og yngri (MJ12): Ares Áki Guðbjartsson
ÍFS óskar öllum sigurvegurum til hamingju!
Category Archives: Uncategorized
Evrópumótið 2021
Öflugur hópur íslenskra frisbígolfara er nú á leið á Evrópumótið í frisbígolfi (European Discgolf Championchip 2021) en mótið hefst þann 11. ágúst og er haldið í Tékklandi að þessu sinni. Halda átti mótið í fyrra en því var frestað um eitt ár vegna Covid ástandsins. Þátttakendur héldu sætum sínum frá því í fyrra en úrslit Íslandsmóts ræður mestu um val á keppendum.
Hópurinn sem fer til Tékklands er þannig skipaður:
Opinn flokkur – MPO
Blær Örn Ásgeirsson, Mikael Máni Freysson, Snorri Guðröðarson
Meistaraflokkur kvenna – MPO
Kolbrún Mist Pálsdóttir, Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir
Stórmeistaraflokkur kvenna 40+ – FP40
Guðbjörg Ragnarsdóttir
Stórmeistararflokkur 50+ – MP50
Birgir Ómarsson
Haukur Arnar Árnason
Ungmennaflokkur 18 og yngri – MJ18
Rafael Rökkvi Freysson
Auk þess má nefna að hún Katerina Zbytovska sem margir þekkja úr Frisbígolfbúðinni mun keppa fyrir Tékkland og ferðast því með hópnum út auk þess sem Freyr Ævarsson faðir Rafaels Rökkva (og Mikaels Mána) fer einnig með og verður Rafael til aðstoðar (caddy) á mótinu. Við óskum hópnum auðvitað góðs gengis.
Hægt verður að fylgjast með mótinu á vefsíðu mótsins: https://edgc2021.com
Aðalfundur ÍFS
Aðalfundur Íslenska frisbígolfsambandsins var haldinn 8. júlí og fór fundurinn fram bæði hefðbundinn en einnig sem fjarfundur. Stjórnarbreytingar urðu þannig að Bjarni Þór Gíslason gaf ekki kost á sér áfram en í hans stað var kosin Svandís Halldórsdóttir. Fram kom að síðasta ár var mikill uppgangur í frisbígolfi hér á landi, metfjöldi valla og skv.
Gallup könnun sem gerð var spiluðu um 45.000 manns íþróttinu á síðasta ári og hafa aldrei verið fleiri. 10 nýir vellir koma upp á þessu ári og í lok sumars verða þeir því orðnir 80 talsins.
Ný stjórn ÍFS er því þannig skipuð:
Birgir Ómarsson formaður
Berglind Ásgeirsdóttir gjaldkeri
Gunnar Einarsson
Runólfur Helgi Jónasson
Svandís Halldórsdóttir
Spilaðu folf í sumar
Með mikilli fjölgun frisbígolfvalla um allt land mælum við auðvitað með að diskarnir séu með í för í sumarfríinu. Yfir 70 vellir eru um allt land og upplagt fyrir fjölskylduna að stoppa og taka hring á öllum völlum sem verða á leið ykkar í sumar. Allsstaðar er frítt að spila og auðvelt að rata en hægt er að finna alla þessa velli hér á síðunni undir “vellir” en einnig er hægt að sækja skortkort í gegnum appið Udisc. Góða skemmtun.
Stærsta frisbígolfmótið hingað til
Um helgina var haldið Sólstöðumót FGR en mótið er eitt af fimm mótum Íslandsbikarsmótaraðarinnar en alls tóku 119 keppendur þátt í mótinu sem er mesta þátttaka á frisbígolfmóti hér á landi til þessa. Mótið fór fram á Gufunesvelli og stóð yfir í þrjá daga en spilaðar eru 18 brautir á dag. Keppt var í 11 flokkum og alls voru ræstir út 32 hópar hvern dag.
Þátttaka á mótum í sumar hefur slegið öll met en fyrir utan þessi 5 stórmót eru haldin minni mót í hverri viku s.s. Aukakastið á mánudögum, Þriðjudagsdeildin bæði í Reykjavík og á Akureyri, Fimmtudagsdeildin fyrir óvant keppnisfólk, Kvennamótaröðin auk annara minni móta og hittinga.
Mikil uppbygging
Það er óhætt að segja að frisbígolfið hefur aldrei verið vinsælla hér á landi en einmitt núna enda margir landsmenn sem hafa uppgötvað þessu frábæru íþrótt á síðustu mánuðum og árum. Margir augljósir kostir eru við þessa frábæru íþrótt og holl hreyfing með góðum vinum er aðeins hluti þeirrar ástæðu að folfið er orðið jafnvinsælt er raun ber vitni.
Það er mikið í gangi um þessar mundir og margt spennandi framundan.
- 70 folfvellir eru um allt land
- 10 nýjir vellir verða byggðir á þessu ári
- Yfir 100 mót eru skipulögð árið 2021
- Víða er verið að uppfæra velli með heilsársteigum
- Grafarholtið stækkar í 18 brautir í sumar
- Barnanámskeið verða í boði í sumar
- Sérstök kvennamótaröð verður í boði í sumar
- 12 viðurkenndir frisbígolfkennarar eru til taks
- Búið er að stofna 7 frisbígolffélög sem standa fyrir námskeiðum og mótum
Það er því mikil uppbygging í gangi um allt land og því óhætt að fullyrða að þetta sumar verður örugglega það skemmtilegast í frisbígolfinu hingað til.
Gufunesvöllur breytist
Þessa dagana er verið að vinna að breytingum á frisbolfvellinum í Gufunesi en völlurinn er eini 18 brauta völlur höfuðborgarsvæðisins. Ákveðið var að leggja göngu- og hjólastíg þar sem völlurinn hefur verið síðustu 18 ár og því nauðsynlegar öryggisbreytingar mikilvægar vegna aukinnar umferðar um svæðið.
Vaskur hópur folfara eyddi helginni í breytingarnar og vonum við að nýtt skipulag vallarins falli spilurum vel en byrjað verður að keppa á því strax í Þriðjudagsdeildinni eftir tvo daga.
Íþrótt allra
Það er óhætt að segja að frisbígolf hafi komið eins og stormsveipur inn í afþreyingu landsmanna á fáum árum en ekki er langt síðan enginn hafði heyrt um þessa íþrótt -hvað þá prófað. Síðustu 2-3 ár hefur orðið algjör sprenging í iðkendafjölda sem nú telur tugi þúsunda á öllum aldri, konur og karla. Ástæðan er líka einföld; fyrir utan að vera fáránlega skemmtilegt þá er þetta ódýr íþrótt sem auðvelt er að ná tökum á þó að það taki mörg ár að ná leikni þeirra bestu.
Gaman er að sjá fjölbreyttnina í hóp þeirra sem spila núna sér til skemmtunar og sérstaklega ungt fólk sem nýtir folf til að hitta félagana og fá um leið góða hreyfingu til viðbótar, oft einu hreyfinguna þessa dagana þegar takmarkaður aðgangur er að mörgu.
Frisbígolf nær nýjum hæðum
Þær fréttir voru að berast að einn besti frisbígolfari heims, bandaríkjamaðurinn Paul McBeth, hefur skrifað undir nýjan samning sem tryggir honum 10 milljónir bandaríkjadala á næstu 10 árum eða 1,2 milljarða íslenskra króna.
Þetta er stærsti samningur sem gerður hefur verið í íþróttinni til þessa en sýnir vel hversu vinsælt frisbígolfið er að verða um allan heim. Það vakti mikla athygli fyrir tveimur árum þegar Paul skipti úr Innova og gerði samning við Discraft upp á 1 milljón dollara. Ljóst er að sá samningur hefur skilað fyrirtækinu miklum verðmætum því þeir gera nú við hann nýjan 10 ára risasamning. Það getur greinilega borgað sig að vera góður í frisbígolfi og góður fulltrúi íþróttarinnar eins og Paul hefur sýnt undanfarin ár.
45 þúsund manns
Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem spilar frisbígolf reglulega hversu margir eru farnir að spila og nánast daglega sjást spilarar á þeim 70 völlum sem komnir eru upp. Gallup var að birta niðurstöður könnunar sem gerð var nýlega og þar kom í ljós að 16% landsmanna 18 ára og eldri spiluðu frisbígolf á síðasta ári en það eru um 45.000 manns.
Tölurnar úr Reykjavík eru líka magnaðar en þar kom í ljós að 50% íbúa á aldrinum 18-24 ára spiluðu frisbígolf 2020 og 45% íbúa á aldrinum 25-34 ára sömuleiðis.
Þetta eru auðvitað ótrúlegar tölur og frisbígolfið virðist vera orðið eitt af vinsælustu afþreyingum landsmanna. Þetta verður skemmtilegt sumar.