Skemmtilegt mánaðamót

Fyrsta mánaðarmótið var haldið þann 17. maí mættu 18 keppendur til leiks. Keppt var í fjórum flokkum í fyrirtaksveðri. Fyrstu mánaðarmeistarar sumarsins eru Þorvaldur Þórarinsson í karlaflokki og Kristrún Gústafsdóttir í kvennaflokki.

Sigurvegari í barnaflokki varð Júlían Máni Kristinsson en hann sigraði Sævar Breka í bráðabana. Sigurvegari í byrjendaflokki varð Sigmar.

Nánari úrslit finnur þú á hér.

Fyrsta mánaðarmótið á fimmtudaginn

Nú er allt að fara í gang á folfvöllum landsins enda veðrið að batna með hverri vikunni. Næsta fimmtudag verður fyrsta “mánaðarmótið” í sumar en það verður haldið þriðja fimmtudag í hverjum mánuði fram á haust. Mótið fer fram á vellinum á Klambratúni og hefst kl. 19. Keppt verður í opnum flokki, kvennaflokki, byrjendaflokki og barnaflokki. Keppnisgjald er 1.000 kr. fyrir félaga ÍFS (2.000 fyrir aðra). Við hverjum alla til að mæta og hafa gaman að.

Folf kynning á Klambratúni – WBDW

Sunnudaginn 6. maí verður Haukur Árnason með kynningu á folfi og heldur um leið mót á Klambratúni en slíkur viðburður fer fram víða um heim þennan dag undir nafninu “World Biggest Discgolf Weekend” hvorki meira né minna. Allar nánari upplýsingar eru á Facebook síðunni okkar en kynningin hefst kl. 14. Við hvetjum alla til að mæta með vini eða ættingja sem langar að kynnast þessu skemmtilega sporti.

Nánari upplýsingar

Folfmót í sumar

Frisbígolfsambandið er búið að kynna mótaskrá sumarsins en upplýsingar má finna undir flokknum “keppnir”. Við endurvekjum hin vinsælu mánaðarmót en þau eru haldin þriðja fimmtudag í hverjum mánuði frá maí fram í september. Við hvetjum alla til að taka þátt í þessum mótum enda skemmtilegt að reyna hæfni sína á móti öðrum spilurum. Á hverju móti er keppt í nokkrum flokkum ef næg þátttaka fæst.

 

Nú er kominn tími

Eftir langan og erfiðan snjóvetur er kominn tími til að taka út folfdiskana og byrja að kasta. Undanfarið hafa spilarar verið að mæta á vellina og má nú sjá spilara daglega á Klambratúni enda veður að verða mjög hagstætt. Sjáumst.

 

Vorið er handan við hornið

Nú er daginn farinn að lengja og styttist í að við kveðjum snjóinn. Vellirnir koma vel undan vetri og við hlökkum mikið til komandi sumars. Nýjir diskar hafa verið kynntir frá Discraft og Innova sem eiga að vera enn betri og langdrægari og eru þeir þegar komnir í sölu hér heima. Sjáumst fljótlega á vellinum.

Skemmtilegt “Áramót” ÍFS

Hið árlega Áramót var haldið í dag í góðu veðri og mættu 11 vaskir keppendur til leiks. Mikill snjór er í Gufunesi sem reyndist mörgum erfitt yfirferðar og fór svo að 4 keppendur luku leik. Mjög skemmtilegt er að spila völlinn í svona miklum snjó enda voru mörg skot í skrautlegri kantinum. Þrátt fyrir þetta vann Þorri á frábæru skori eða 6 undir (48 skotum), Birgir varð í öðru sæti, Haukur í þriðja og Jón Símon í fjórða. Í ljós kom að bleikir diskar sjást best í svona aðstæðum.

Vetrarfolf

Nú er snjórinn loksins kominn og frostið farið að bíta. Mjög skemmtilegt er að spila frisbígolf á veturna þó að diskarnir breyti aðeins um hegðun. Gott ráð er að skilja alla hvíta diska eftir heima en nota frekar skæra liti sem auðvelt er að finna.

Svo er auðvitað nauðsynlegt að vera vel klæddur með húfu og vettlinga. Góða skemmtun!

Ferðalög erlendis

Nú eru margir á ferðalögum erlendis og þá er gott ráð að taka með sér 2-3 diska og leita uppi velli í nágrenni við dvalarstaði. Á eftirfarandi vefslóð er hægt að finna velli sem skráðir eru með leiðbeiningum um rötun. Gott er að vera búinn að prenta út kort af vellinum hér heima því ekki er víst að það sé fáanlegt á staðnum. Eins og hér heima þá er yfirleitt frítt að spila á öllum völlum.

Til gamans má geta að í Svíþjóð eru 128 vellir, Finnlandi 118, Þýskalandi 34, Noregi 30 og í Bretlandi 20 en í sumar var fyrsti völlurinn settur upp í London. Flestir eru auðvitað vellirnir í Bandaríkjunum eða 3600.

Finna velli…

Aðalfundur ÍFS

Fimmtudaginn 3. nóvember verður haldinn aðalfundur Íslenska frisbígolfsambandsins. Fundurinn verður haldinn í Gufunesbæ í Grafarvogi og byrjar kl. 20. Við hvetjum alla áhugasama um starf ÍFS og uppbyggingu frisbígolfs á Íslandi að mæta og taka þátt í þessu með okkur.