Mótaskráin 2013

Í aðalfundi sambandsins var samþykkt ný mótaskrá fyrir árið 2013 og er hún nú komin hér á vefinn undir flokknum “keppnir”. Fyrsta mánaðarmótið verður haldið fimmtudaginn 18. apríl.

Aðalfundur ÍFS

Aðalfundur Íslenska frisbígolfsambandsins, ÍFS, verður haldinn þriðjudaginn 12. mars 2013 kl. 20 í Gufunesbæ.

Dagskrá fundarins verður: (skv. 5 grein laga ÍFS)

1. Skýrsla stjórnar.
2. Endurskoðaðir reikningar lesnir og bornir upp til staðfestingar.
3. Umræður um skýrslu stjórnar og nefnda.
4. Kosið í stjórn og aðrar trúnaðarstöður.
5. Önnur mál.

Kynnt verður mótaskrá fyrir sumarið 2013.

Rétt til setu á aðalfundi með tillögu- og atkvæðisrétt eiga allir fullgildir félagar, 16 ára og eldri. Samkvæmt lögum skal boða aðalfund með minnst 10 daga fyrirvara. (4 grein). Árgjaldið 2013 verður það sama og í fyrra þ.e. 2.000 kr. og veitir helmingsafslátt á mótum ÍFS, atkvæðisrétt á aðalfundi auk reglulegra folf-frétta.

Reikningsupplýsingar ÍFS eru: Banki: 513-14-503326, Kennitala: 450705-0630

Vonum að sjá sem flesta.

Vetur!

Fátt er skemmtilegra en að grípa diska og spila hring á veturna. Aðstæður eru allar öðruvísi en yfir sumartímann og því þarf að spila á annan hátt en vanalega. Í kulda haga diskarnir sér öðruvísi og flug þeirra verður annað en þegar hlýrra er. Við hvetjum alla til þess að prófa.

Skemmtilegt áramót

Hið árlega nýársmót okkar folfara “áramótið” var haldið sunnudaginn 6. janúar við skemmtilegar aðstæður á Klambratúni. Töluverður klaki er á vellinum og víða erfitt að fóta sig. Sigurvegari varð Davíð Torfason á 51 skoti (3 undir), annar varð Jón Símon en þriðji Haukur Árnason.

Gleðilega hátíð!

Óskum öllum folfurum gleðilegrar hátíðar, sjáumst vonandi mikið á völlunum á komandi ári.

Minni á hið árlega Áramót sem haldið verður sunnudaginn 6. janúar nk. kl. 13 á Klambratúnsvellinum. Spilaðir verða tveir hringir.

Vetrarfolf!

 

Nú er veturinn kominn og óveður síðustu daga forsmekkurinn af næstu mánuðum. Folfarar hafa verið duglegir að spila á vellinum á Klambratúni enda aðstæður þar góðar og skjólgott í vetrarrokinu.

Síðasta mánaðarmót sumarsins

Í kvöld, fimmtudaginn 20. september, verður haldið síðasta mánaðarmót sumarsins á Gufunesvellinum. Mótið hefst kl. 18.30 og byrjar skráning kl. 18. Vegna birtu þá er mikilvægt að byrja spilun tímanlega. Keppt verður í fjórum flokkum; opnum flokki, kvennaflokki, barnaflokki og byrjendaflokki.

Við hvetjum alla til þess að mæta enda veðrið alveg frábært.

AceRace

Skemmtilegt AceRace mót.

Á laugardaginn var haldið hið árlega AceRace mót Discraft en var full þátttaka en öll settin seldust upp. Einn ás náðist á mótinu en það var enginn annar en Bjarni töframaður sem galdraði diskinn í körfuna og stóð uppi sem sigurvegari. Nokkuð margir náðu að hitta í körfuna án þess að diskurinn færi ofan í en fyrir það er gefið M (málmur).

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá mótinu.