Viltu kennslu frá þeim bestu?

Íslenskir folfarar detta í lukkupottinn í júní  en þá munu þrír frábærir frisbígolfspilarar heimsækja okkur og halda námskeið í þessu skemmtilega sporti. Námskeiðin eru fjölbreytt þar sem bæði verður boðið upp á námskeið fyrir byrjendur en einnig fyrir þá sem lengra eru komnir. Við hvetjum því alla til að nota tækifærið og bæta sinn leik verulega.
Folfararnir þrír eru allir bandaríkjamenn, Nikko Locastro er sem stendur númer 4 á heimslistanum og fyrrum Bandaríkjameistari, Philo Brathwaite er nr. 29 á heimslistanum en stutta spilið er hans sérgrein, Gregg Barsby er númer 51 á heimslistanum en forhandaköst eru hans sérgrein en Gregg er mjög vinæll námskeiðshaldari.

Barnanámskeið kr. 2.900, kvennanámskeið kr. 4.900, Almennt námskeið kr. 4.900 og stutt sérnámskeið (pútt, forhönd, bakhönd og stutt köst (approach)) kr. 2.900 hvert.
Námskeiðin verða 28. júní á Akureyri, 29. og 30. júní hér í Reykjavík. Skráning og upplýsingar eru á netfangið: bogi@rvkdiscgolf.com

Vel gert Blær!

Nú um helgina tók Blær Örn Ásgeirsson þátt í sterku móti í Skotlandi og gerði sér lítið fyrir og sigraði mótið á 16 köstum undir pari en Blær er aðeins 14 ára gamall. Það vakti mikla athygli meðal mótshaldara og keppenda að hann ákvað að spila í sterkasta flokknum í stað þess að spila í barnaflokki sem hann hefði mátt gera. Þetta hefur hann gert hér heima líka og yfirleitt endað í verðlaunasæti.

Með auknum vinsældum frisbígolf hefur orðið mikil aukning yngri spilara og óhætt að segja að margir efnilegir séu þar í hópi. Blær Örn er sönnun þess en þrátt fyrir að vera aðeins 14 ára þá er hann orðinn einn af okkar fremstu spilurum. Það verður gaman að fylgjast með þessum flotta strák í framtíðinni.

Kvennamótaröðin 2017

Nú í sumar ætlar Íslenska frisbígolfsambandið að halda sérstaka kvennamótaröð í frisbígolfi og er öllum konum velkomið að taka þátt, bæði reyndum og óvönum. Haldin verða 6 mót í sumar (annan hvern miðvikudag) og gilda 4 bestu mótin til titilsins Kvennamótameistari 2017. Lögð verður áhersla á að hafa létta og skemmtilega stemningu.
 
Á hverju móti verða spilaðir tveir hringir (2×9 holur) og veitt verða verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sæti á hverju móti. Spilað verður annanhvern miðvikudag og til skiptis á Klambratúni og í Fossvogi. Fyrsta mótið verður 7. júní kl. 18 á Klambratúni.
Skráning er á netfangið folf@folf.is en einnig er hægt að mæta beint á mótið.
Við hvetjum allar konur til að taka þátt.

Dagsetningar kvennamótaraðarinnar.

7. júní  Klambratúnsvöllur kl. 18.30

21. júní  Fossvogsvöllur kl. 18.30

5. júlí   Klambratúnsvöllur kl. 18.30

19. júlí   Fossvogsvöllur kl. 18.30

2. ágúst   Klambratúnsvöllur kl. 18.30

16. ágúst   Fossvogsvöllur – Lokamót kl. 18.30

16. ágúst  Lokahóf og verðlaunaafhending kl. 18.30

Mæting á öll mót er kl. 18 – mótin hefjast 18.30

Enn fjölgar frisbígolfvöllum

Mikill áhugi á frisbígolfinu hefur auðvitað skilað sér í fleiri spilurum, fleiri mótum og fjölgun valla. Nú í sumar er orðið staðfest að 9 nýjir vellir bætast við þá 30 sem fyrir eru en þetta eru vellir víða um landið. Flestir þessara nýju valla verða settir upp á næstu vikum og ættu allir (nema Grafarholt) að vera klári í byrjun júní.
Þessir nýju vellir eru: Kópavogur, Snæfellsbær, Búðardalur, Reykhólahreppur, Hrafnagil í Eyjafirði, Dalvík (3 körfur), Höfn í Hornafirði, Selfoss, Stokkseyri/Eyrarbakki og Grafarholt í Reykjavík. Að auki eru í gangi miklar framkvæmdir á vellinum okkar í Gufunesi en þessi eini 18 brauta völlur landsins er tvímælalaust sá erfiðasti.
Það er því óhætt að hlakka til sumarsins.

Aðalfundur ÍFS 2017

Þann 30. mars sl. var haldinn aðalfundur ÍFS og var hann vel sóttur. Farið var í gegnum verkefni síðasta árs sem var það besta í sögu frisbígolfsins frá upphafi. Aldrei hafa fleiri stundað sportið og vellirnir eru orðnir 30. Á síðasta ári voru haldin rúmlega 60 folfmót sem er líka met. Kynnt var áframhaldandi uppbygging á sportinu fyrir þetta ár en gert er ráð fyrir að amk. 8 nýjir vellir komi upp í sumar. Einnig var kynnt mótaskrá fyrir árið en sérstök kvennamótaröð verður prófuð í sumar og er það von okkar að það auki þátttöku kvenna. Ný stjórn var kosin en þar kom Halldór Þór inn fyrir Kristinn Arnar sem gaf ekki kost á sér áfram. Stjórnina skipa Birgir Ómarsson, Berglind Ásgeirsdóttir, Jón Símon Gíslason, Árni Sigurjónsson og Halldór Þór Helgason

Flott barna- og unglingastarf í Eyjafirði

Þessi hressi hópur hefur stundað vikulegar æfingar innanhúss í vetur að Hrafnagili í Eyjafirði. Nú eru æfingarnar að færast út enda veðrið farið að leyfa það. Tveir hópar hafa verið að æfa í vetur með Umf. Samherja og náðum við að grípa seinni hópinn á æfingu en þeir voru einmitt að prófa nýja vallarhönnun en í vor kemur þarna 9 brauta völlur sem verður þá 32. völlurinn á landinu. Flott framtak og til fyrirmyndar.

Vetrarfolf

Einn af kostum við okkar frábæra sport er möguleiki á heilsársiðkun. Þó að auðveldast sé að stunda frisbígolf að sumarlagi þá er líka mjög skemmtilegt að spila við vetraraðstæður. Passa þarf vel að nota litríka diska sem auðvelt er að finna og auðvitað fatnað við hæfi. Nú þegar veturinn er kominn af krafti hvetjum við alla til að prófa en fylgjast vel með hvar diskarnir lenda til þess að auðvelda leitina.

Frábært ár að baki

Nú er að líða eitt besta árið í sögu frisbígolfsins, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Algjör sprenging hefur orðið í sportinu hér heima, völlunum fjölgar ár frá ári og nýjir spilarar bætast í þetta frábæra sport. Það lítur út fyrir að í jólapökkum þessi jólin hafi verið mörg loforð um nýja velli á næsta ári og það er því spennandi ár framundan.

Finnar eru folfarar

15538381_1031569066965481_8547061300738392064_nÞað hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu frisbígolfíþróttarinnar í Finnlandi síðustu 10 ár. Þó að við séum ánægð hér á Íslandi með okkar 30 velli þá var nýlega opnaður 575undasti völlurinn í Finnlandi. Þar af hafa 70 vellir komið á síðustu tveimur árum.
Held að íslenskir folfarar ættu að skipuleggja næsta sumarfrí til frænda okkar í Finnlandi.