Braut ársins 2019

Íslenska frisbígolfsambandið og Frisbígolfbúðin stóðu nú í byrjun ársins fyrir kosningu um Braut ársins 2019 og kölluðum við eftir tilnefningum frá spilurum en alls fengu 39 brautir atkvæði í þessu forvali. Margar skemmtilegar brautir eru hér á landi en við ákváðum að kjósa um þær sem fengu flestu tilnefningarnar.
Fyrsta brautin sem hlýtur þennan titil hefur verið valið en það er braut nr. 11 á frisbígolfvellinum á Hömrum, Akureyri.
Við hvetjum auðvitað alla sem hafa tækifæri til að spila þessa frábæru braut.

Spilað að vetri til

Nú er vetur á Íslandi og snjór og klaki þekur stóran hluta landsins. Það stoppar þó ekki frisbígolfara að stunda sína íþrótt því mjög auðvelt er að spila folf yfir vetrarmánuðina.
Þegar spilað er í snjó er auðvitað gott ráð að skilja hvítu diskana eftir heima og fylgjast vel með því hvar diskarnir lenda. Gormar eða léttir mannbroddar eru upplagðir þegar klaki og ís er á völlunum en margir af nýrri völlum eru með góða heilsársteiga sem koma sér vel í vetraraðstæðum.
Einnig er hægt að spila í myrkri en þá er upplagt að líma lítil og þunn ljós neðan á diskinn sem auðveldar leit að honum.
Við hvetjum alla til að prófa að spila yfir veturinn og klæða sig eftir aðstæðum.

Nýr 18 brauta völlur á Akureyri

Þessa dagana var verið að klára uppsetningu á nýjum 18 brauta velli á Háskólasvæðinu á Akureyri. Vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Glerárskóla þurfti sá völlur að færast og kom þá upp sú hugmynd að setja hann á svæðið fyrir aftan Háskólann á Akureyri og stækka hann um leið í 18 brautir.
Þetta er aðeins þriðji völlurinn á Íslandi sem er með 18 brautir (hinir eru í Gufunesi og að Hömrum) en það sem er óvenjulegt við þennan að allar brautir eru mjög stuttar þannig að þetta er ekki hefðbundinn keppnisvöllur. Við vonum að völlurinn verði mjög skemmtilegur, einskonar stærri og erfiðari útgáfa af Hamarskotstúni.
Eins og aðrir vellir er frítt að spila á honum og við hvetjum alla til að prófa.

Frisbíhaust

Nú er haustið gengið í garð eftir frábært sumar og auðvitað er hægt að spila frisbígolf áfram eins og ekkert sé. Nú eru bestu vellirnir þeir sem eru með góða teiga (heilsársteiga) með undirlagi sem þolir þessa notkun þegar mikil bleyta er og grasið er viðkvæmt.
Á höfuðborgarsvæðinu eru byrjaðar tvær mótaraðir sem opnar eru fyrir alla, annarsvegar Sunnudagsdeildin sem spiluð á hverjum sunnudegi kl. 13 á vellinum í Grafarholti (Þorláksgeisla 51) og Ljósasérían sem spiluð er á miðvikudögum kl. 20 á mismunandi völlum. Þá eru sett ljós á diskana og spilað í myrkri. Nánari upplýsingar um þessi tvö mót eru á www.fgr.is.
Að auki verða inniæfingar í vetur fyrir þá sem vilja en við erum með Egilshöllina kl. 20 á laugardögum og í Fellaskóla á þriðjudögum kl. 20. Allir velkomnir.

Nýir Íslandsmeistarar

8 nýir Íslandsmeistarar í frisbígolfi.

Um síðustu helgi var haldið Íslandsmótið í frisbígolfi, það 15. í röðinni, og óhætt er að segja að veðrið hafi verið okkar megin en hlýtt og að mestu þurrt var allan tímann. Keppt var á fjórum völlum en keppnin hófst á vellinum í Guðmundarlundi þar sem haldið var Texas Scramble keppni á föstudeginum.
Mikil keppni var í flestum flokkum og tveir ásar og fleiri góð tilþrif litu dagsins ljós. Hér er hópmynd af sigurvegurum helgarinnar og óskum við þeim öllum til hamingju.

Íslandsmeistarar urðu:
Opinn meistaraflokkur: Blær Örn Ásgeirsson
Meistaraflokkur kvenna: Kolbrún Mist Pálsdóttir
Stórmeistararflokkur: Árni Sigurjónsson
Ungmennaflokkur: Rafael Rökkvi Freysson
Barnaflokkur: Alexander Októ Þorleifsson
Almennur flokkur 1: Pedro Luis Carvalho
Almennur flokkur 2: Kristinn Þorri Þrastarson
Almennur flokkur kvenna: Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir

Öll úrslit má sjá hér: https://discgolfmetrix.com/1080408

Íslandsmótið í frisbígolfi

Helgina 20.-22. september verður Íslandsmótið í frisbígolfi haldið en á mótinu munu bestu folfarar landsins keppa um þennan eftirsóknaverða titil. Íslandsmótið er einnig fimmta og síðasta keppni Íslandsbikarsins sem er mótaröð sem hefur verið í gangi í sumar.

Keppt er á þremur völlum til að auka fjölbreyttni og reyna á getu spilara. Vellirnir eru: Grafarholt 18 (2×9), Vífilsstaðir 18 (2×9) og Gufunes 18 brautir (rástímastart)

Mótsstjóri er Berglind Ásgeirsdóttir en hún var einnig mótsstjóri á Íslandsmótinu í fyrra.

Allir geta tekið þátt óháð kyni og aldri. Nafnbótin “Íslandsmeistari” fær eingöngu sá sem hefur íslenskan ríkisborgararétt. Boðið verður upp á 8 keppnisflokka.

Á föstudeginum verður haldið Íslandsmeistaramótið í Texas Scramble þar sem tveir eru í liði og geta allir tekið þátt í því.

Metfjöldi valla

Vinsældir frisbígolfs hafa aukist með hverju árinu og nú eru fleiri vellir á Íslandi en nokkru sinni áður. Vellirnir eru af ýmsum gerðum en hægt er að flokka þá í auðvelda velli, hefðbundna velli og keppnisvelli. Flestir hafa gaman af fjölbreyttni og spila á ólíkum völlum en aðrir vilja fara á sama völlinn aftur og aftur.
Hægt er að sjá lista yfir flesta velli á landinu og er þeim skipt eftir landshlutum.

Listinn er hér: https://www.folf.is/folfvellir-a-islandi-4/

Vantar þig kennslu í frisbígolfi?

Íslenska frisbígolfsambandið hefur í samvinnu við finnska folfsambandið haldið leiðbeinendanámskeið í frisbígolfi en tilgangur þess að að auka gæði og fagmennsku í kennslu og námskeiðahaldi hér á landi. Núna eru 12 manns búin að útskrifast af fyrsta námskeiðinu og eru því formlega ÍFS frisbígolfkennarar.

Ef þig vantar kennslu í frisbígolfi þá er boðið bæði upp kennslu fyrir einstaklinga og hópa. Hafið samband við okkur á folf@folf.is eða beint við viðkomandi kennara.

Frisbígolfkennarar ÍFS

  • Andri Freyr Gunnarsson – andri@fuzz.is
  • Árni Sigurjónsson – arni@frisbigolf.is
  • Berglind Ásgeirsdóttir – blind.asgeirsdottir@gmail.com
  • Birgir Ómarsson – biggiomars@gmail.com
  • Blær Örn Ásgeirsson – fotbolti7@gmail.com
  • Bogi Bjarnason – bogi@rvkdiscgolf.com
  • Guðbjörg Ragnarsdóttir – guragn@gmail.com
  • Hlynur Friðriksson -hlynurfrid@gmail.com
  • Kristján Dúi Sæmundsson – kristjan.dui.saemundsson@rvkskolar.is
  • Mikael Máni Freysson – mikaelmanifreys98@gmail.com
  • Ólafur Haraldsson – olafur@ennemm.is
  • Ragnhildur Einarsdóttir – ragga.einars@gmail.com

Bættu getu þína og skelltu þér á námskeið!

Fræga fólkið

Eftir því sem frisbígolfið verður stærra hér á landi þá fjölgar heimsóknum þekktra atvinnumanna í sportinu sem finnst áhugavert að koma hingað og spila enda athyglisverð þróunin á sportinu hér á landi með yfir 70 velli í ekki stærra landi. (sem er auðvitað heimsmet miðað við höfðatölu) Um síðustu helgi var hér tvöfaldur heimsmeistari, Ricky Wysocki, sem er einn besti spilarinn í heiminum í dag og um þessa helgi er hér staddur Nathan Sexton sem varð m.a. bandarískur meistari árið 2017. Þessir tveir buðu íslenskum spilurum upp á námskeið sem voru auðvitað vel sótt en ÍFS styrkti koma þeirra til landsins.

Sprenging í aðsókn

Sumarið 2019 stefnir í að verða það allrastærsta í sportinu hingað til en aldrei hafa fleiri verið á völlunum en þessar fyrstu vikur sumars. Það hefur verið gaman að sjá fjölbreytta hópa spila frisbígolf en fjölskyldur eru áberandi á öllum völlum. Nú eru komnir yfir 70 vellir hér á landi og eru þeir mjög ólíkir varðandi erfiðleikastig og lengdir brauta. Metsala hefur verið í sölu diska og eru byrjendasettin sérstaklega vinsæl enda á hagstæðu verði.
Allir eru auðvitað hvattir til að fara út og spila og sérstaklega þeir sem enn hafa ekki prófað.