Allir í frisbígolf

Það má með sanni segja að landinn hefur tekið frisbígolfið með trompi þetta sumarið en aldrei hafa fleiri stundað þetta skemmtilega sport en einmitt núna. Metsala er á diskum, töskum, körfum og öðrum búnaði sem sportinu fylgir og frábært að sjá þann fjölbreytta hóp sem er farinn að kasta diskum um allt land.
Við höfum stundum sagt að frisbígolf sé besta lýðheilsumál sem fyrir okkur hefur komið lengi og ótrúlega margir sem drífa sig út að kasta diskum í stað þess að hanga heima yfir samfélagsmiðlunum. Göngutúr með tilgangi er oft góð lýsing hjá mörgum.
Við hvetjum alla til að bjóða með vin eða vinnufélaga sem ekki hefur prófað og kynna fyrir þeim frisbígolf.

Er frisbígolfvöllur í þinni heimabyggð?

Nú þegar frisbígolfið er orðið eins vinsælt og raun er með þúsundum spilara og yfir 60 völlum um allt land og margir nýjir að bætast við þá er rétt að benda á hversu einfalt það er að setja upp frisbígolfvöll. Best er að senda erindi til bæjarfélagsins þar sem óskað er eftir að settur verði upp folfvöllur. Ástæðurnar eru auðvitað fjölmargar og hér eru þær helstu:

  • Ódýrt og einfalt er fyrir bæjarfélög að setja upp völl. Engar landslagsbreytingar.
  • Holl og góð hreyfing. Upplagt lýðheilsuverkefni.
  • Hentar öllum aldurshópum, allt frá börnum til ömmu og afa.
  • Kostar ekkert að spila á völlunum.
  • Búnaður er mjög ódýr, í byrjun nægir einn frisbígolfdiskur.
  • Hægt að spila í nánast öllum veðrum, allt árið um kring.
  • Hægt að stunda einn eða fara með vinahópnum.
  • Færir nýtt líf á svæði þar sem er t.d. skógrækt eða útivistarsvæði.
  • Viðhald á völlunum er mjög lítið.

Frisbígolfvöllur er frábær viðbót við þá afþreyingu sem fyrir er í sveitarfélaginu. Hafið endilega samband við okkur á folf@folf.is til að fá ráðleggingar eða svör við spurningum.

Álandseyjar veðja á frisbígolfið

Á myndinni eru ráðamenn Álandseyja og virðast mjög ánægðir með þetta verkefni.

Nú ætla Álandseyjar að taka af skarið og búa til einskonar paradís frisbígolfara með því að setja þar upp 16 velli í sumar. Verkefnið er samstarf ráðamanna á Álandseyjum og finnska fyrirtækisins Discmania með það í huga að laða að ferðamenn frá Svíþjóð og Finnlandi en Álandseyjar eru vinsæll ferðamannastaður þessara þjóða. Á Álandseyjum búa 30.000 manns og eru eyjarnar alls 6.700 þannig að ferðast þarf á báti til að geta spilað alla vellina. Möguleiki verður að spila alla vellina á einum sólarhring en frekar er ráðlegt að taka þrjá daga í þetta.

Hér má lesa meira um þetta áhugaverða verkefni.
https://www.discmania.net/blogs/discover/turning-aland-into-disc-golf-island?fbclid=IwAR3WWGiUe-R7v_7WIQfwOSlvDHt61dLOZeTQKlr9YDndO45oYtRYa8BlRcM

Ísland fær fyrst landa leyfi til keppnishalds eftir Covid

Í Covid-19 faraldrinum ákváðu PDGA, alþjóðasamtök frisbígolfsins, að leyfa ekki keppnishald á þeirra vegum en mikið af mótum hér á landi eru vottuð PDGA mót. Þetta var auðvitað gert til að draga úr smithættu um allan heim og stuðla ekki að hópsöfnun frisbígolfara með mögulegum smitum.
Nú var verið að tilkynna að fyrsta landið sem fær aftur rétt til mótahalds er Ísland og má það þakka góðum árangri Íslands í baráttu við Covid-19. Sækja þarf um leyfi fyrir hverju móti og þegar er búið að tryggja að Þriðjudagsdeildin og Reykjavík Open verða PDGA vottuð.
Áfram Ísland.

Frisbígolfið aldrei vinsælla

Síðustu tvær vikur hafa sannað það svo um getur að frisbígolfið er orðið gríðarlega vinsælt og hafa flestir frisbígolfvellir verið stútfullir af áhugasömum diskakösturum. Kostirnir eru auðvitað augljósir í þessum skemmtilega leik sem frisbígolfið er, ódýrt og einfalt og nýliðar eru fljótir að ná tökum á að kasta diskum. Auk þess fær fólk út úr þessu góða hreyfingu sem ekki hefur veitt af síðustu vikur.
Frá því að frisbígolfið var kynnt fyrst hér á landi þá hafa vinsældir þess vaxið með hverju ári og nú eru komnir yfir 60 sérhannaðir vellir um allt land og því auðvelt fyrir flesta að finna völl í nágrenninu. Nú í vor hafa aldrei fleiri spilað þessa frábæra íþrótt og má því með sanni segja að það hafi aldrei verið vinsælla en einmitt núna.

Frisbígolf á tímum veirufaraldurs

Þegar yfirvöld á Íslandi settu á samkomubann þann 16. mars sl. var ljóst að bann yrði sett á allt skipulagt íþróttastarf í landinu og að sjálfsögðu tókum við frisbígolfarar strax þátt í þessu með því að fella niður öll mót og samkomur sem fyrirhuguð voru.

Nú liggur fyrir að frá og með 4. maí nk. verður slakað á þessum reglum og munum við þá hefja mótahald að nýju um allt land en með breyttu fyrirkomulagi sem aðallega snýr að því að minnka smithættu vegna kórónavírusins. Þessar reglur falla vel að frisbígolfi og ekki er þörf á að breyta neinum reglum í íþróttinni sjálfri heldur snýr þetta meira að umgengni um sameiginlegan búnað og hvert annað.

Þær reglur yfirvalda sem taka í gildi þann 4. maí að öllu óbreyttu eru:

  • Ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman.
  • Snertingar eru óheimilar og halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga.
  • Notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki en annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar.

Vinahópar sem spila sér til gamans þurfa að vera meðvitaðir um þær smithættur sem eru til staðar og gera það sem hægt er að gera til að minnka smithættu á milli fólks. Við höfum gefið út leiðbeiningar til að árétta þetta og þar er t.d. góð hugmynd að minnka sameiginlega snertingu við körfuna með því að gefa stutt pútt og reikna þau sem eitt kast. Við mælum með 3 metrum en hópurinn kemur sér saman um þessa vegalend.

Mótahald.

Mót í frisbígolfi hefjast eftir 4. maí og verður mótaskráin kynnt á næstu dögum. Verið er að vinna í leiðbeiningum um framkvæmd mótanna en einnig erum við að vinna í samstarfi við PDGA um nánari útfærslur og fá leyfi til að hluti móta verði PDGA viðurkennd. Meðfylgjandi er listi yfir helstu áherslur í mótahaldi sumarsins en þetta getur þó breyst eftir aðstæðum og þeirri reynslu sem við fáum.

  • Tveggja metra reglan í fullu gildi við allar aðstæður
  • Boðið verður upp á spritthreinsun fyrir og eftir keppni
  • Keppendur snerta ekki eða handleika búnað annarra
  • Hámark fjórir keppendur í hverju holli
  • Skor verður einungis fært rafrænt
  • Úðabrúsar með spritti verða við körfur til hreinsunar
  • Verðlaunaafhending verður óhefðbundin og snertilaus

Við horfum bjartsýnum augum til næstu vikna og mánaða og trúum því að þetta verði enn eitt frábært sumar til fribígolfiðkunar.

ÍFS – Íslenska frisbígolfsambandið.

Stöndum saman

Nú þegar Covid-19 veiran gengur yfir heimsbyggðina er fólk hvatt til þess að halda sig fjarri öðrum og minnka þannig smithættuna sem er eina leiðin til að losna við þennan vágest. Allri starfsemi og mótahaldi hefur verið hætt í frisbígolfinu á meðan við erum að ná tökum á ástandinu.

Við viljum ítreka við þá einstaklinga sem eru að spila frisbígolf um þessar mundir að fylgja þeim leiðbeiningum sem Almannavarnir hafa sent út og koma þannig í veg fyrir að smitast eða smita aðra.

2 metrar á milli spilara. Veiran smitast með svokölluðu dropasmiti og hósti eða hnerri getur auðveldlega borið hana á aðrar manneskjur. Hún getur einnig smitast í samtali á milli aðila en tveir metrar er talin vera örugg fjarlægð.

Ekki snerta aðra diska. Veiran getur lifað á plasti í töluverðan tíma og því mikilvægt að snerta ekki aðra diska en þína eigin.

Ekki snerta körfuna. Góð hugmund er að sleppa púttinu og t.d. að gefa öll pútt sem eru 3 metrar eða styttra.

Það styttist í að lífið fari aftur í hefðbundinn farveg og þá getum við spilað aftur eins og okkur lystir. Hlýðum Víði og hlustum á Þórólf.

Hreyfum okkur!

Nú eru óvenjulegir tímar. Fólk er hvatt til að hittast ekki að óþörfu og alls ekki í stórum hópum til að minnka líkur á að smit berist á milli manna. Það er hinsvegar mikilvægt að hreyfa sig og frisbígolf er góður kostur ef skynsemin er höfð að leiðarljósi þegar sportið er stundað. Við hvetjum fólk til að spila sem mest en með ábyrgum og eftirfarandi hætti:

  • Haldið a.m.k. tveggja metra fjarlægð á milli spilara.
  • Ekki snerta aðra, heilsast eða faðmast.
  • Notið hanska þegar körfur eru snertar.
  • Ekki taka upp diska annarra spilara.
  • Takið sprittið með.

Þau sem eru viðkvæm fyrir eða með undirliggjandi sjúkdóma þurfa að fara mjög varlega og spila einsömul. Öll sem tök hafa á eru hvött til að hreyfa sig reglulega, fara í göngutúra og þar er frisbígolfið upplögð leið til þess að viðhalda heilsunni.

Sportið í sumar.
Frisbígolf er mjög hentug íþrótt að spila næstu mánuði á meðan veiran gengur yfir þar sem auðvelt er að uppfylla allar varúðaráðstafanir Landlæknis. Þetta er einstaklingsíþrótt þar sem samskipti við aðra geta verið alveg snertilaus og ekki spillir fyrir að frítt er að spila á öllum völlum landsins. Sj´áumst á næsta velli.

Aðalfundur ÍFS 2020

Aðalfundur Íslenska frisbígolfsambandsins verður haldinn miðvikudaginn 29. apríl nk. kl. 20 í húsnæði FGR að Þorláksgeisla 51.
Hefðbundin aðalfundarstörf, mótaskrá sumarsins, kynning á helstu niðurstöðum skoðanakönnunar. Hægt verður að taka þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði.

Frisbígolf allt árið

Eitt af því ánægjulega í þróun folfvalla hér á landi síðustu ár eru betri teigar þ.e. undirlagið þaðan sem upphafskastið er tekið. Í raun má segja að vellirnir breytist úr sumarvöllum þar sem teigarnir eru góðir og þurrir í 2-3 mánuði í heilsársvelli sem gefur notendum kost á að spila allt árið.

Kostirnir eru auðvitað margir.
Fyrir utan það hversu mikið betra er að fóta sig á góðum teigum sem yfirleitt eykur líkurnar á góðu kasti þá eru nokkrir kostir til viðbótar. Minni hætta er á að renna til eða misstíga sig auk þess að kastsvæðið verður snyrtilegra því með mikilli notkun þá er grasið fljótt að gefa eftir og drulla myndast.
Nú eru flestir vellir á höfuðborgarsvæðinu komnir með heilsársteiga og við mælum eindregið með því að hefðbundir teigar (náttúrulegir) séu uppfærðir upp í góða heilsársteiga á öllum völlum landsins. Sendið okkur póst ef ykkar vantar frekari upplýsingar á folf@folf.is