Það er óhætt að segja að frisbígolfið hefur aldrei verið vinsælla hér á landi en einmitt núna enda margir landsmenn sem hafa uppgötvað þessu frábæru íþrótt á síðustu mánuðum og árum. Margir augljósir kostir eru við þessa frábæru íþrótt og holl hreyfing með góðum vinum er aðeins hluti þeirrar ástæðu að folfið er orðið jafnvinsælt er raun ber vitni.
Það er mikið í gangi um þessar mundir og margt spennandi framundan.
70 folfvellir eru um allt land
10 nýjir vellir verða byggðir á þessu ári
Yfir 100 mót eru skipulögð árið 2021
Víða er verið að uppfæra velli með heilsársteigum
Grafarholtið stækkar í 18 brautir í sumar
Barnanámskeið verða í boði í sumar
Sérstök kvennamótaröð verður í boði í sumar
12 viðurkenndir frisbígolfkennarar eru til taks
Búið er að stofna 7 frisbígolffélög sem standa fyrir námskeiðum og mótum
Það er því mikil uppbygging í gangi um allt land og því óhætt að fullyrða að þetta sumar verður örugglega það skemmtilegast í frisbígolfinu hingað til.
Þessa dagana er verið að vinna að breytingum á frisbolfvellinum í Gufunesi en völlurinn er eini 18 brauta völlur höfuðborgarsvæðisins. Ákveðið var að leggja göngu- og hjólastíg þar sem völlurinn hefur verið síðustu 18 ár og því nauðsynlegar öryggisbreytingar mikilvægar vegna aukinnar umferðar um svæðið.
Vaskur hópur folfara eyddi helginni í breytingarnar og vonum við að nýtt skipulag vallarins falli spilurum vel en byrjað verður að keppa á því strax í Þriðjudagsdeildinni eftir tvo daga.
Það er óhætt að segja að frisbígolf hafi komið eins og stormsveipur inn í afþreyingu landsmanna á fáum árum en ekki er langt síðan enginn hafði heyrt um þessa íþrótt -hvað þá prófað. Síðustu 2-3 ár hefur orðið algjör sprenging í iðkendafjölda sem nú telur tugi þúsunda á öllum aldri, konur og karla. Ástæðan er líka einföld; fyrir utan að vera fáránlega skemmtilegt þá er þetta ódýr íþrótt sem auðvelt er að ná tökum á þó að það taki mörg ár að ná leikni þeirra bestu.
Gaman er að sjá fjölbreyttnina í hóp þeirra sem spila núna sér til skemmtunar og sérstaklega ungt fólk sem nýtir folf til að hitta félagana og fá um leið góða hreyfingu til viðbótar, oft einu hreyfinguna þessa dagana þegar takmarkaður aðgangur er að mörgu.
Paul McBeth er einn besti frisbígolfari heims með 1053 í PDGA stig
Þær fréttir voru að berast að einn besti frisbígolfari heims, bandaríkjamaðurinn Paul McBeth, hefur skrifað undir nýjan samning sem tryggir honum 10 milljónir bandaríkjadala á næstu 10 árum eða 1,2 milljarða íslenskra króna.
Þetta er stærsti samningur sem gerður hefur verið í íþróttinni til þessa en sýnir vel hversu vinsælt frisbígolfið er að verða um allan heim. Það vakti mikla athygli fyrir tveimur árum þegar Paul skipti úr Innova og gerði samning við Discraft upp á 1 milljón dollara. Ljóst er að sá samningur hefur skilað fyrirtækinu miklum verðmætum því þeir gera nú við hann nýjan 10 ára risasamning. Það getur greinilega borgað sig að vera góður í frisbígolfi og góður fulltrúi íþróttarinnar eins og Paul hefur sýnt undanfarin ár.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem spilar frisbígolf reglulega hversu margir eru farnir að spila og nánast daglega sjást spilarar á þeim 70 völlum sem komnir eru upp. Gallup var að birta niðurstöður könnunar sem gerð var nýlega og þar kom í ljós að 16% landsmanna 18 ára og eldri spiluðu frisbígolf á síðasta ári en það eru um 45.000 manns.
Tölurnar úr Reykjavík eru líka magnaðar en þar kom í ljós að 50% íbúa á aldrinum 18-24 ára spiluðu frisbígolf 2020 og 45% íbúa á aldrinum 25-34 ára sömuleiðis.
Þetta eru auðvitað ótrúlegar tölur og frisbígolfið virðist vera orðið eitt af vinsælustu afþreyingum landsmanna. Þetta verður skemmtilegt sumar.
Flestir líta á frisbídiska sem frekar einfalda hönnun þar sem flestir diskar líta svipað út en það er alls ekki raunin. Um er að ræða flókna hönnun og mikið úrval mismunandi diska með ólíka flugeiginleika. Til þess að skýra þetta betur tökum við sem dæmi fjögurra númera kerfið en það er algengasta kerfið til að greina eiginleika diska. Nokkrir framleiðendur nota það s.s. Innova, Lattitute 64, Dynamic Discs, Westside og Legacy. En hvað þýða þessar fjórar tölur sem stiplaðar eru á suma diska. Þær tákna hraða, svif, beygju og lokasveig.
Hraði (speed)
Hann er mældur frá 1-14 og er í raun mikilvægasta talan því hinar þrjár tölurnar taka mið af henni. Þessi tala er líka mest misskilda breytan því margir spilarar, sérstaklega byrjendur, halda að þetta sé sá hraði sem diskurinn flýgur á. Það er auðvitað eðlilegur misskilningur. Það rétta er að hraðatalan segir til um hraðann sem þarf að koma disknum á til þess að hann hagi sér eins og hann er hannaður til. Því hærri sem talan er því hraðar þarftu að kasta disknum.
Hraðatalan segir einnig til um það hvort diskur er pútter, midrange (miðari) eða dræver. Pútterar hafa hraðann 1-3, midrange eru með hraðann 4 eða 5 á meðan dræverum er yfirleitt skipt upp í tvo flokka, brautar-dræverar og lengdar-dræverar (fairway og distance). Brautar-dræverar eru yfirleitt með hraðann 6-8 en lengdar-dræverar eru 9-14. Hraðatalan skiptir miklu máli því ef kastarinn nær ekki að kasta disknum á þeim hraða sem hann er gerður fyrir þá virka ekki hinir eiginleikar disksins á þann hátt sem gefið er upp. Ef disknum er kastað á of litlum hraða verður hann oftast yfirstöðugur og leitar þá of mikið til vinstri.
Svif (glide)
Svifið er líklega það sem er auðveldast að skilja í flugi diska en það þýðir einfaldlega svifið sem diskurinn hefur á flugi. Svifið er mælt á skalanum 1-7 en flestir diskar eru á bilinu 4-6. Því hærri sem talan er því meira svif hefur hann.
Beygja (turn)
Þriðja talan segir til um það hversu mikið diskurinn beygir á flugi rétt eftir að hann leggur af stað, veltir sér til vinstri eða hægri. Stundum er líka talað um stöðuleika disksins á miklum hraða. (High speed Stability-HSS). Oft er talað um þrjá meginflokka í þessu samhengi; yfirstöðugan (overstable), stöðugan (stable) og undirstöðugan (understable). Skalinn er frá +1 til -5 en flestir diskar eru á bilinu 0 til -3.
Til að skýra tölurnar þá miðum við t.d. við rétthentann spilara sem kastar bakhandarkast en fyrir hann er +1 yfirstöðugur diskur og veltir sér því strax til vinstri, 0 er stöðugur diskur og fer því beint en mínustölur flokka diskinn sem undirstöðugann og þá leitar diskurinn strax til hægri eftir að honum er sleppt.
Undirstöðugir diskar eru frábærir fyrir byrjendur sem ná ekki þeim hraða og eiginleikum úr disknum sem vanari spilarar geta og fara því diskarnir oft frekar beint í flugi sínu sem er mikill kostur.
Lokasveigur (fade)
Síðasta talan táknar stöðugleika disksins á litlum hraða eða LSS-Low Speed Stability. Hún segir til um það hversu mikið diskurinn sveigir til vinstri þegar hægist á fluginu. Skalinn er á bilinu 0-6 en talan 0 þýðir að diskurinn lendir í nokkur beinni línu á meðan diskur með töluna 6 tekur krappa beygju til vinstri rétt fyrir lendingu (miðað við rétthentann spilara sem kastar bakhandarkast).
Nú er góðir tímar framundan í kjölfarið á því að sóttvarnareglur voru rýmkaðar á þann veg að mótahald getur hafist að nýju. FGR heldur sín fyrstu mót þessa dagana og má segja að áhuginn sé griðarlegur en nánast fullt er á fyrsta Kuldakastið sem er vikulegt sunnudagsmót. Þetta er góð vísbending fyrir sumarið þar sem við reiknum með met þátttöku.
Við hvetjum auðvitað alla til þess að framfylgja sóttvarnarreglum því þannig getum við haldið mótahaldinu áfram.
Nú er 2020 loksins liðið og við lítum björtum augum til komandi mánuða með hækkandi sól. Þó að margir hafi beðið spenntir eftir þessum tímamótum og viljað kveðja árið sem fyrst þá var nýliðið ár eitt það besta í sögu sportsins hér á landi. Aldrei hafa fleiri spilað frisbígolf og var fjölgunin gríðarleg enda auðvelt að stunda sportið og uppfylla þær sóttvarnarreglur sem í gildi eru.
Framundan eru spennandi tímar og vonandi getum við farið að lifa eðlilegra lífi hér innanlands sem fyrst.
Flestir vellir miðað við höfðatölu. Þó að 2020 hafi verið skrýtið ár og margir geti ekki beðið eftir að það klárist þá var þetta mjög gott ár fyrir frisbígolfið. Átta nýir vellir voru byggðir á þessu ári og þeir nýjustu eru í Grímsey, á Þórshöfn, að Ásbrú í Reykjanesbæ og í Grundarfirði og voru settir upp núna á síðustu vikum. Auk þess fengum við nýjan 18 brauta völl í Reykjanesbæ og völlurinn á Selfossi stækkaði i 18 brautir en þeir eru þá orðnir fimm 18 brauta vellirnir á landinu.
Í sumar hafa aldrei fleiri spilað frisbígolf en algjör sprenging varð í vinsældum sportsins í sumar, vinsælustu vellirnir hafa verið þétt setnir og nú má sjá alla aldurshópa af báðum kynjum kasta diskum í allar áttir. Það var metþátttaka á þeim frisbígolfmótum sem við héldum í sumar sem náði hámarki á glæsilegu Íslandsmóti í ágúst en mótið er það langfjölmennasta sem haldið hefur verið hingað til en það var haldið á þremur völlum, Vífilsstaðavelli, Grafarholtsvelli og á Gufunesvelli.
Við lítum bjartsýn til komandi árs en metnaðarfullar áætlanir eru komnar í gang með nýja almenningsvelli, nýjan 27 brauta keppnisvöll, endurbætur á núverandi völlum og glæsilegri mótaskrá – við erum rétt að byrja!
Enn einn frisbígolfvöllurinn bættist í hóp þeirra 70 valla sem komnir eru upp hér á landi þegar nýr völlur á Ásbrú í Reykjanesbæ var settur upp í vikunni. Völlurinn er með 9 brautir og er virkilega gaman að sjá þennan mikinn áhuga sem er hjá íbúum á frisbígolfi en nú eru komnir fjórir vellir á Suðurnesjum. Í sumar var opnaður glæsilegur 18 brauta völlur í Njarðvíkurskógum sem hefur fengið góðar undirteknir.