Fimmtudaginn 21. ágúst verður haldið mót á vellinum í Gufunesi en þessi mót eru alltaf haldin þriðja fimmtudag í hverjum mánuði yfir sumartímann. Mótið hefst kl. 19 og mæting kl. 18.30. Keppt verður í öllum flokkum þ.e. A- og B-flokkar sem spilaðir eru af bláum teigum, C- flokkur (byrjenda), kvenna og barnaflokkur eru spilaðir af rauðum teigum. Gufunesvöllurinn er í mjög góðu standi þessa dagana en nýbúið er að slá allar brautir. Við hvetjum alla til að taka þátt.
Author Archives: folf.is
Paul McBeth heimsmeistari í þriðja sinn
Á heimsmeistaramótinu í frisbígolfi sem var haldið um miðjan ágúst í Portland, Oregon varði tvöfaldur heimsmeistari tiltilinn og vann í þriðja sinn í röð. Aðeins Ken Climo hefur unnið oftar eða samtals 12 sinnum (þarf af 9 sinnum í röð). Keppnin í ár var æsispennandi og þurfti bráðabana til að fá úrslit. Allt var jafnt þar til á 5. braut þegar keppinautur hans Richard Wisocki kastaði í tré og tapaði þar einu kasti á Paul sem dugði til. Nathan Doss varð þriðji og Paul Ulibarri fjórði en þeir eru allir Bandaríkjamenn. Ken Climo sigraði í mastersflokki og í kvennaflokki sigraði Catrina Allen. Met fjöldi fylgdist með mótinu og sýnt var beint frá henni í sjónvarpi. Þess má geta að íslandsvinirnir stóðu sig vel, Simon Lizotte hafnaði í 13. sæti og Avery Jenkins í því 23.
16 frisbígolfvellir
Nú um miðjan ágúst geta íslenskir frisbígolfspilarar valið úr 16 folfvöllum til að spila á hér á landi. Síðustu daga og vikur hafa nýjustu vellirnir verið að rísa og nýjustu vellirnir í Reykjavík sem eru í Fossvogsdal, Laugardal og Breiðholti (efst í Elliðaárdal) hafa strax hlotið feiknagóðar viðtökur og fjöldi fólks farnir að spila á völlunum nú þegar. Nýju vellirnir eru góð viðbót við Klambratúnsvöllinn sem er orðinn mjög þétt setinn á góðviðrisdögum. Þessu til viðbótar er áætlað að vellirnir á Húsavík og Bifröst opni á næstunni.
Með tilkomu allra þessara valla hefur fjölbreyttnin aukist gríðarlega og nú má segja að hver spilari geti fundið völl við sinn smekk. Við höfum reynt að hanna vellina þannig að þeir séu ólíkir og hafi hver sinn stíl. Kort af völlunum er hér á síðunni undir flipanum “vellir”.
Á nýju völlunum eru alltaf fleiri en einn teigur á hverri braut, léttari fyrir byrjendur en þyngri fyrir hina. Bjóðið endilega vinum, vinnufélögum eða ættingjum með ykkur og kynnið fyrir þeim þessa frábæru íþrótt.
Nýr völlur á Flúðum
Nýverið var opnaður völlur á Flúðum í Hrunamannahreppi. Völlurinn er 9 brauta og er fjölbreyttur og skemmtilegur. Fyrsta hola er við félagsheimilið en þar er kort af vellinum. Einnig er hægt að nálgast kortið hér á síðunni undir “vellir”. Þeir eru því orðnir 12 vellirnir á landinu en reiknað er með að nýju vellirnir þrír í Reykjavík opni í lok næstu viku.
Skemmtileg heimsókn
Nú eru þeir Avery Jenkins og Simon Lizotte flognir til Bandaríkjanna því undirbúningur að heimsmeistaramótinu er hafinn en það hefst eftir 10 daga. Þeir héldu hér þrjú námskeið sem voru vel sótt af okkar fólki auk þess sem þeir fóru í nokkur fjölmiðlaviðtöl. Það var gaman fyrir okkur að sjá mörg glæsileg tilþrif m.a. yfir 200 metra drive á Klambra, örugg 20 metra pútt, nokkrir ásar,150 metra dræv með pútter og tvisturinn hjá Avery á 8. í Gufunesi. Vonandi koma þeir aftur fljótlega.
Heims- og Evrópumeistarar í heimsókn
Þessa dagana eru staddir hér á landi þeir Avery Jenkins fyrrum heimsmeistari og Simon Lizotte núverandi Evrópumeistari í frisbígolfi. Þeir eru hér á landi í boði Íslenska frisbígolfsambandsins og halda námskeið 23. og 24. júlí. Mikil ánægja var eftir fyrstu tvö námskeiðin en þar fóru þeir í pútt tækni og stutt spil en einnig langskot (drive) þar sem sýnd var tækni til þess að bæta við lengd kasta. Hópurinn fékk að sjá Simon kasta driver um 200 metra og pútter hátt í 150 metra við mikla hrifningu áhorfenda.
Enn er hægt að skrá sig á síðasta námskeið sem verður haldið kl. 19 á fimmtudaginn á Klambratúni (skráning á staðnum).
Júlí mánaðarmót
Námskeið – Deep in the game
Nú liggur fyrir dagskráin á heimsókn þessara tveggja snillinga til landsins. Við hvetjum auðvitað alla áhugasama að nýta þetta einstaka tækifæri og læra handtökin af þeim bestu í heimi. Þeir kenna bæði pútttækni og löng köst. Þeir eru báðir þekktir fyrir að vera frábærir púttarar auk þess að vera með þeim lengstu í langskotum.
Við ætlum að fá þá til þess að spila tvo sýningarhringi í Gufunesi þar sem þeir sýna okkur hvernig þeir gera þetta, útskýra köstin og val á diskum. Það eru allir velkomnir að mæta á það og kostar ekkert.
Félagarnir Avery og Simon halda þrjú námskeið og verð á hverju námskeiði er aðeins 3.500 kr fyrir félagsmenn ÍFS, 5.000 kr. fyrir aðra.
22. júlí (þriðjudagur) – kl. 20.30 Hittingur á Klambratúni
23. júlí (miðvikudagur) – kl. 16-18 Námskeið (pútt)
23. júlí (miðvikudagur) – kl. 20-22 Námskeið (drive)
24. júlí (fimmtudagur) – kl. 19-21 Námskeið (drive)
25. júlí (föstudagur) – kl. 19.00 Sýningarhringur í Gufunesi
Við hvetjum alla til þess að nýta þetta einstaka tækifæri.
Tveir af þeim bestu á leiðinni til Íslands
Í lok júlí koma til landsins tveir af þekktustu folfurum í heimi, þeir Avery Jenkins og Simon Lizotte, í boði Íslenska frisbígolfsambandsins. Þeir munu halda hér námskeið undir heitinu “Deep in the game” en þeir hafa ferðast víða með þessi vinsælu námskeið. ÍFS hefur lengi reynt að fá þá til Íslands og við erum mjög ánægðir með að það skildi loksins hafa tekist. Nákvæm dagsetning og fyrirkomulag námskeiðanna liggur ekki enn fyrir en líklega verður þetta á tímabilinu 22.-26. júlí nk. Þeir munu ekki keppa hér á landi en við munum líklega fá þá til að taka hring í Gufunesi og sjá þá hvernig atvinnumenn gera þetta.
Avery Jenkins vann heimsmeistaratitilinn 2009 og hefur verið einn öflugasti folfari heims síðan. Hann er fæddur í Bandaríkjunum 1978 og er búinn að vera atvinnumaður í frisbígolfi síðan 2002 og hefur m.a. þrisvar orðið bandarískur meistari í lengdarkeppni en lengsta kastið hans er 212 metrar. Undanfarið hefur hann einbeitt sér að þjálfun og kennslu en hann er einmitt þjálfari Simon Lizotte.
Simon Lizotte er 22 ára gamall þjóðverji sem er þessa stundina einn af bestu frisbígolfspilurum heims. Þrátt fyrir ungan aldur er hann núverandi Evrópumeistari og margfaldur Þýskalandsmeistari. Hann er bæði frábær púttari en einnig er hann með lengstu kösturum í dag og á m.a. hraðametið þegar hann kastaði diski á 144 km hraða. Margir spá honum heimsmeistaratitlinum á næstu árum.
Við setjum inn nánari upplýsingar og skráningu fljótlega.
Af hverju frisbígolfvöll í þitt sveitarfélag?
Með aukinni vitund um mikilvægi lýðheilsu hefur orðið vakning á fjölbreyttri og ódýrri afþreyingu og hollri hreyfingu. Þannig hefur orðið mikil aukning síðustu ár á þeim sem hafa uppgvötað frisbígolf og eru farnir að stunda það af kappi. Þessu hafa mörg sveitarfélög tekið eftir og fáum við fjölda fyrirspurna þar sem verið er að velta því upp af hverju ætti að setja upp frisbígolfvöll í bæjarfélaginu. Nú eru komnir 30 vellir hér á landi og ekki ólíklegt að þeim fjölgi enn frekar á næstu 2-3 árum.
Ástæðurnar eru fjölmargar. Fyrir utan tilbreytingu og fjölbreytni í afþreyingu þá er frisbígolfið sérlega hentugt fyrir alla aldurshópa og auðvelt fyrir hvern sem er að ná tökum á því.
- Ódýrt og einfalt er að setja upp heilan völl. Engar landslagsbreytingar.
- Kostar ekkert að spila á völlunum.
- Búnaður er mjög ódýr, í byrjun nægir einn 2.000 króna frisbídiskur.
- Hentar allt frá börnum til ömmu og afa.
- Hægt að spila í flestum veðrum, allt árið.
- Holl og góð hreyfing.
- Hægt að stunda einn eða fara með vinahópnum.
- Færir nýtt líf á svæði þar sem er t.d. skógrækt, útivistarsvæði, almenningsgarðar ofl.
- Viðhald á völlunum er mjög lítið.
Það er því engin spurning að frisbígolfvöllur er frábær viðbót við þá afþreyingu sem fyrir er. Hafið endilega samband við okkur á folf@folf.is til að fá ráðleggingar eða svör við spurningum.