Einn nýjasti folfvöllurinn er nú kominn í notkun á Valhúsahæðinni á Seltjarnarnesi. Völlurinn er með 9 körfur og liggur í hring frá kirkjunni og því auðvelt að finna hann. Heimamenn hönnuðu brautirnar sem liggja um hæðina en við hvetjum auðvitað alla til þess að prófa.
Author Archives: folf.is
Nýr frisbígolfvöllur á Egilsstöðum
Í síðustu viku var opnaður fyrsti folfvöllurinn á Austfjörðum en það er skemmtilegur völlur í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum. Hann er 6 körfu völlur og með fjölbreyttar brautir á þessu frábæra svæði. Við hvetjum alla til þess að prófa hvort sem þeir búa á Austurlandi eða eru á leið þar hjá. Einnig er nýbúið að opna nýjan völl á Húsavík.
Á næstu dögum verður síðan settur upp 9 körfu völlur í Glerárhverfi á Akureyri en síðan bætast við vellir á Eiðsvelli, Akureyri, Seltjarnarnesi og Seljahverfi.
Völlurinn Garðarlundi Akranesi
Einn er sá völlur sem er í uppáhaldi hjá mörgum folfurum en það er völlurinn á Akranesi. Hann er staðsettur í fallegum garði, Garðarlundi, sem liggur við hlið golfvallarins og er algjör perla þeirra Skagamanna. Völlurinn er með níu brautum og bíður upp á mikla fjölbreyttni s.s. trjágöng, tjarnir, mishæður og opin skot. Brautirnar eru frekar stuttar en krefjandi en tveir teigar eru á hverri braut. Við hvetjum alla til þess að leggja leið sína upp á Akranes og prófa þennan frábæra völl.
Mikill uppgangur folfsins
Gaman er að fylgjast með þeirri miklu uppsveiflu sem er í frisbígolfi hér á landi en hún er í samhengi við þær auknu vinsældir sem eru um allan heim. Vinsælustu vellirnir eru gríðarlega mikið sóttir en á bestu dögunum eru spilarar á hverjum teig og þúsundir að spila á hverjum degi. Fara þurfti í framkvæmdir á teigum og grínum á Klambratúni vegna mikillar notkunar sem er auðvitað í okkar augum lúxusvandamál sem gaman er að glíma við.
Við hvetjum alla til þess að draga vini, ættingja, vinnufélaga og nágranna út á völl og kynna þeim þessa frábæru íþrótt enda allir sem geta spilað frisbígolf.
Miðnæturmánaðarmót
Næsta fimmtudag, 18. júní, verður haldið hið árlega miðnæturmót okkar folfara enda Jónsmessa næstu helgi og því lengstu dagar ársins. Mótið byrjar kl. 23 og lýkur rétt fyrir kl. 01 eftir miðnætti. Keppt verður eftir Texas Scramble fyrirkomulagi og í tveggja manna liðum. Keppnisgjald er 2.000 á mann (1.000 fyrir félaga ÍFS). Mæting er kl. 22.30
Sjö nýir vellir að bætast við
Mikill áhugi er hjá sveitarfélögum um að setja upp frisbígolfvelli í sinni heimabyggð og eru mörg þeirra að skoða þennan möguleika enda bendum við á að þetta sé ódýr og einföld leið til að auka fjölbreyttni í afþreyingu fyrir íbúa auk þess sem frisbígolf stuðlar að aukinni hreyfingu og auðvitað lífsgleði.
Nú í sumar er komin staðfesting á sjö nýjum völlum en þeir eru á Egilsstöðum, tveir á Akureyri (Glerárþorp og Eiðsvelli), á Húsavík, í Bolungarvík, á Seltjarnarnesi og í Seljahverfi í Reykjavík (hjá Ölduselsskóla). Þessir vellir bætast við þá 19 sem nú þegar eru á landinu en auk þess eru mörg bæjarfélög jákvæð og gætu tekið ákvörðun í sumar.
Konur og frisbígolf
Greinilegt er að margir eru að uppgötva folfið þessar vikurnar og gaman að sjá öll þessi nýju andlit á völlunum en sérstaklega hefur það vakið athygli okkar hvað konum hefur fjölgað mikið. Nú um helgina fengum við Jenni Eskelinen til þess að halda sérstök kvennanámskeið og var þátttakan frábær en hátt í 50 konur mættu til leiks á námskeiðin tvö. Það er von okkar að konum haldi áfram að fjölga í þessari skemmtilegu íþrótt.
Evrópumeistari kvenna til landsins
Jenni Eskelinen er 30 ára finnskur íþróttafræðingur og ein af bestu frisbígolfspilurum Evrópu. Hún kynntist frisbígolfi árið 2009 og til að byrja með spilaði sér til gamans með vinahópnum. Þegar hún tók eftir að hún kastaði töluvert lengra en vinirnir fór hún að hugleiða keppnir og árið 2011 tók hún skrefið, keypti fullt af diskum og æfði sig daglega. Hún hafði mikinn áhuga á tækninni við sportið og æfði orðið skipulega. Árið eftir var hún komin í úrslit á Finnska meistaramótinu.
2014 var mjög gott ár fyrir Jenni. Hún keppti í 13 PDGA mótum, komst á verðlaunapall í 10 þeirra og þar af sem sigurvegari á 5 PDGA mótum. Hún toppaði síðan árið í fyrra með því að vinna Evrópumeistarmótið.
Íslenska frisbígolfsambandið í samvinnu við Frisbígolfbúðina hefur samið við Jenni um að koma hingað til lands í sumar og halda námskeið þann 13. júní nk. Sérstök áhersla verður lögð á konur í þessari heimsókn en hún mun halda sér námskeið fyrir þær (kl. 13 og kl. 16) sem ætlað er bæði byrjendum og lengra komnum. Með þessari heimsókn langar okkur að auka áhuga kvenna á þessu frábæra sporti og vonandi grípa þær tækifærið og læra handtökin af þessum snillingi.
Skýrsla PDGA
Nýlega tók ÍFS, ásamt 26 öðrum samböndum, þátt í könnun á vegum PDGA um stöðu frisbígolfs í heiminum. Spurt var um fjölda spilara, fjölda valla og þau verkefni sem sambandið er að vinna að. Líkt og á Íslandi hefur frisbígolf vaxið hratt á undanförnum árum og skortur á landsvæði fyrir nýja velli er farið að hindra uppbyggingu í sumum löndum. ÍFS er í góðu samstarfi við sveitarfélög á Íslandi og hefur fengið jákvæð viðbrögð um fjölgun valla víðsvegar um landið.
Skýrslu PDGA má nálgast hér: 2015 PDGA International Countries Survey – Report & Analysis
Folfið að komast í gírinn
Eftir langan vetur og kalt vor er loksins farið að grænka og greinilega er vor í lofti. Vellirnir koma vel undan vetri þó eitthverja teigastaura þurfi að laga hér og þar. Margt stendur til í sumar en þó nokkrir nýjir vellir eru í farvatninu t.d. tveir nýjir á Akureyri, völlur á Húsavík, í Bolungarvík auk vallar í Seljahverfi í Reykjavík. 5-6 bæjarfélög til viðbótar eru líklega að samþykkja velli á næstu vikum þannig að mikið líf verður í þessum málum í sumar. Auk þess er hafin vinna við lagfæringar á Klambratúni og í Gufunesi.
Greinileg aukning er á nýjum spilurum og síðustu vikur hafa vellirnir í Reykjavík verið spilaðir daglega þrátt fyrir misjafnt veður. Það er auðvitað frábært og verður gaman að sjá þróunina á þessum málum, sérstaklega ef veðrir leikur við okkur.
Mótamálin eru komin á fullt og en hægt er að nálgast upplýsingar um þau hér á síðunni undir “keppnir“. Við hvetjum alla til þess að taka þátt í mótum enda gert ráð fyrir reynslulitlum keppendum bæði með flokkaskiptingunni A, B og C en ekki síður forgjöfinni sem við erum nýbúnir að setja í gang.