Til marks um uppganginn í frisbígolfinu á heimsvísu þá var það tilkynnt nú í vetur að risinn Adidas væri að koma með á markaðinn sérstaka frisbígolfskó en það er í fyrsta sinn sem þeir framleiða vöru sérstaklega fyrir sportið. Þetta gera þeir í samstarfi við heimsmeistarann sjálfann, Paul McBeth, en hann hefur komið að þróun skóna og mun keppa í þeim á öllum mótum á þessu ári. Efri hluti skósins er úr Terrex Swift R Gore-Tex sem tryggir góða öndun og vatnsheldni. Þess má geta að fyrsta sólarhringinn seldust 850 pör og greinilegt að folfarar eru mjög spenntir. Skildi vera langt í að við sjáum einhvern í þessum skóm á völlunum hér heima?
Author Archives: folf.is
Góður aðalfundur ÍFS
Aðalfundur Íslenska frisbígolfssambandsins var haldinn fimmtudaginn 31. mars nk. kl. 20 í hlöðunni í Gufunesbæ. Fram kom á fundinum að síðasta ár hafi verið það besta frá upphafi en þeir sem stunda frisbígolf hafa aldrei verið fleiri. Einnig fer völlunum fjölgandi en nú í vor verða komnir 30 vellir á landinu. Í starfsskýrslu stjórnar kom fram að síðasta ár hafi verið mjög annasamt en rúmlega 50 mót voru haldin víðsvegar um landið. Síðasta sumar bar einna hæst heimsókn Jenni Eskelinen evrópumeistara sem hélt tvö kvennanámskeið í folfi og var frábær þátttaka á þeim báðum en nálægt 50 konur tóku þátt.
Kosin var fimm manna stjórn á fundinum en í henni sitja Birgir Ómarsson, formaður, Kristinn Arnar Svavarsson, Jón Símon Gíslason, Berglind Ásgeirsdóttir og Árni Sigurjónsson.
Vorið nálgast
Eftir óvenjusnjóþungan vetur fer nú loksins að glitta í sumarið. Margir hafa verið duglegir að spila í vetur enda auðvelt að spila frisbígolf í snjó og kulda. Sumstaðar hefur snjóþunginn verið svo mikill að körfurnar hafa farið á kaf í skafla en sem betur fer er það undantekning.
Margir spilarar æfa púttin innanhúss á veturnar en það er auðvitað frábær leið til að halda sér við og jafnvel bæta pútttæknina. Til eru margar gerðir af ferðakörfum sem auðvelt er að setja upp hvar sem er. Gott er að hafa í huga að stuttu púttin eru í raun þau mikilvægustu því þau eiga auðvitað alltaf að heppnast. Það er því mjög gott að leggja áherslu á pútt sem eru innan við 7 metrar og reyna að ná góðum tökum á þeim.
Vetrarsól
Þrátt fyrir snjó og kulda þá er auðvelt að spila frisbígolf á veturna. Góður fatnaður og litaðir diskar (ekki hvítir) er allt sem þarf. Körfurnar standa yfirleitt alltaf uppúr snjónum og því auðvelt að finna þær. Stundum getur verið gott að vera á mannbroddum (gormum) vegna hálku og ef mikill snjór er yfir vellinum þá getur diskurinn týnst auðveldlega. Þá er gott ráð að líma grannan spotta (1-1,5 metra) í miðjan diskinn en þessi borði finnst alltaf auðveldlega. Pakkaborði er líka hentugur. Góða skemmtun.
Áramótið 2016
Hefð er komið á að halda fyrstu keppni ársins á fyrsta sunnudegi á vellinum í Gufunesi, óháð veðri og vindum. Síðustu ár höfum við haldið þessum sið og lent í allskonar veðri, bæði snjó og hita. Gott er að byrja árið með þessum hætti. Spilaður verður einn hringur af bláum teigum og hefst keppni kl. 13 sunnudaginn 3. janúar.
Vetur konungur
Nú hefur snjóað vel á okkur landsmenn og vellirnir okkar teppalagðir með 30-60 cm snjólagi. Margir eru samt enn að spila enda getur það verið mjög skemmtilegt að taka hring við þessar aðstæður. Best er að vera með skæra diska sem finnast vel í snjónum en sumir nota það ráð að binda c.a. 50 cm band/borða í miðjan diskinn sem auðvelt er að finna.
Fimmti völlurinn tekinn í notkun á Akureyri
Nú í vikunni var settur upp nýr 6 körfu frisbígolfvöllur á Eiðsvelli á Akureyri en völlurinn er sá fimmti sem Akureyringar geta nú spilað á. Hinir eru að Hömrum, á Hamarskotstúni, við Glerárskóla og í Hrísey. Auk þess voru settar upp stakar körfur við Oddeyrarskóla, Eyrarveg og við Hjalteyrargötu.
Akureyri er því orðinn draumastaður fyrir áhugasama frisbígolfkastara enda vellirnir mjög ólíkir og fjölbreyttnin mikil. Án efa er erfiðasti völlurinn inn á Hömrum en hann er að mörgum talinn einn skemmtilegasti (og erfiðasti) völlur landsins. Vellirnir á Hamarskotstúni og Eiðsvelli eru hinsvegar stuttir vellir þar sem hægt er að spila með pútterum eða midrange diskum. Völlurinn við Glerárskóla var settur upp í sumar og notaður á Landsmóti UMFÍ sem fram fór um verslunarmannahelgina en um 80 manns kepptu þá í folfi.
Íslandsmeistarar krýndir um helgina.
Um helgina fór fram Íslandsmeistararmótið í frisbígolfi en keppt var á þremur völlum, Gufunesi, Fossvogi og Laugardal. Á mótinu er keppt í 5 flokkum og krýndir Íslandsmeistarar í opnum flokki, kvennaflokki og barnaflokki. Hörkuspennandi keppni var í öllum flokkum en það endaði svo að Jón Símon Gíslason varð Íslandmeistari karla, Guðbjörg Ragnarsdóttir Íslandsmeistari kvenna og Blær Örn Ásgeirsson er Íslandsmeistari barna. Guðbjörg varði sinn titil frá því í fyrra en hún er margfaldur Íslandsmeistari en Jón Símon var að vinna titilinn í annað sinn en hann vann einnig 2013. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.
Nýr frisbígolfvöllur á Egilsstöðum
Völlurinn í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum er sex körfu völlur og öllum opinn. Við innkomuna í garðinn, nálægt Safnahúsinu, hefur verið komið fyrir skilti sem sýnir skipulag frisbívallarins, m.a. lengd einstakra brauta.
Auk Fljótsdalshéraðs lagði Ungmennafélagið Þristurinn til fjármagn til kaupa á körfu, og Minningasjóður um Pétur Kjerúlf lagði verkefninu til veglegt fjárframlag til minningar um Pétur. Á skiltinu við frisbívöllinn standa þessi orð frá aðstandendum sjóðsins til minningar um Pétur: „Brosum, elskum og njótum dagsins í dag og verum þakklát fyrir það sem við eigum og erum. Verum besta útgáfan af okkur og njótum litlu hlutanna í lífinu, því þegar litið er til baka eru það þeir sem skipta máli. Grípum stundina og gerum hana að þeirri réttu í stað þess að bíða eftir henni.“
Hér er kort af vellinum. Egilsstaðir
Íslandsmótið í frisbígolfi 2015
Íslandsmótið verður haldið dagana 4-6. september 2015
Keppt verður í 5 flokkum og á þremur völlum. Mótsstjóri er Bjarni Baldvinsson. Á föstudeginum er keppt í Texas Scramble á Klambratúni.
Skráning skal send á netfangið folf@folf.is og tilgreint í hvaða flokki keppt er. Skráningu lýkur miðvikudaginn 2. september kl. 18.
Nánari upplýsingar eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015
Upplýsingar um A-flokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – A
Upplýsingar um B-flokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – B
Upplýsingar um C-flokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – C
Upplýsingar um kvennaflokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – kvenna
Upplýsingar um barnaflokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – barna