Nú í sumar hefur orðið mikil aukning í barna- og unglingastarfi í frisbígolfinu en í fyrsta sinn erum við að bjóða upp á sérstök námskeið fyrir þessa aldurshópa. Þannig hafa fjölmargir krakkar fengið tækifæri í sumar á að læra réttu handtökin af sérmenntuðum frisbígolfkennurum og öruggt að við munum sjá meira til þeirra í framtíðinni.
Hér er hress hópur Þróttara sem var á námskeiði í vikunni og okkur sýnist áhuginn skína úr hverju andliti.
Author Archives: folf.is
Paige Pierce á Íslandi
Síðustu daga nutum við íslendingar þess heiðurs að fá sjálfan heimsmeistara kvenna, Paige Pierce í heimsókn til okkar en hún hélt námskeið bæði í Reykjavík og á Akureyri fyrir námsfúsa folfara. Óhætt er að segja að Paige hafi vakið athygli í frisbígolfheiminum undanfarin ár en hún hefur núna unnið heimsmeistaratitilinn fjögur ár í röð og er nánast ósigrandi á þeim mótum sem hún keppir á. Þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára hefur hún spilað frisbígolf í um 20 ár enda kynnti faðir hennar sportið fyrir henni strax á unga aldri.
Það sem vekur auðvitað sérstaka athygli við Paige er hversu tæknilega góð hún er þrátt fyrir að vera hvorki hávaxin eða kraftaleg og sýnir svo greinilega að tæknin er það sem skiptir mestu máli í frisbígolfinu en ekki vöðvakraftur eða líkamlegir yfirburðir. Paige heillaðist af landi og þjóð og stefnir á að koma hingað aftur sem fyrst.
12 nýir vellir bætast við í sumar
Á þessu sumri bætast 12 nýir frisbígolfvellir við þá sem fyrir eru en sífellt fleiri sveitarfélög eru að uppgvöta hversu frábært frisbígolf er fyrir íbúa sína enda eitt skemmtilegasta og ódýrasta lýðheilsuverkefni sem hægt er að finna.
Þessir nýju vellir eru: Guðmundarlundur í Kópavogi (byrjun júlí), Grímsey (byrjun júlí), Árnes (tilbúinn), Fáskrúðsfjörður (tilbúinn), Sauðárkrókur (byrjun júlí), Eiðar (BSRB), Vogar (byrjun júlí), Grindavík (4 körfur), Svalbarðseyri (miðjan júlí), Þorlákshöfn (byrjun júlí), Eyrarbakki (byrjun júlí) og Garðabær (júlí). Í sumar verða því 57 frisbígolfvellir komnir upp hér á landi en auðvitað er frítt að spila á þeim öllum. Við hvetjum folfara til að taka frisbídiskana með sér í sumarfríið og prófa sem flesta velli.
Til viðbótar við þetta er verið að stækka völlinn á Hömrum Akureyri í 18 brautir en hann verður tilbúinn um miðjan júlí. Fram að þessu hefur völlurinn í Gufunesi verið eini 18 brauta völlur landsins og er mikil tilhlökkun folfara að fá annan stóran völl. Opnunarmótið á þeim velli verður helgina 20.-22. júlí en sérstakur afsláttur er fyrir folfara á tjaldsvæðinu á Hömrum þá helgi. Einnig standa yfir framkvæmdir við völlinn í Grafarholti en þar er verið að setja flotta gervigrasteiga á allar brautir auk þess að brautum 7 og 8 er breytt töluvert. Grafarholtsvöllurinn verður eftir þessar breytingar sá flottasti í landinu en minna má á að þar er opið hús alla sunnudaga frá kl. 13-15 þar sem hægt er að fá lánaða diska auk kennslu í sportinu.
Heimsmeistari kennir frisbígolf
Nú í júní erum við svo heppin að heimsmeistari kvenna, bandaríkjamaðurinn Paige Pierce, kemur hingað til landsins og heldur námskeið fyrir þá sem vilja læra betur rétt handtök í frisbígolfi. Paige er ríkjandi heimsmeistari og hefur unnið titilinn alls fjórum sinnum þrátt fyrir ungan aldur auk þess að vera stigahæsta konan í sögu sportsins.
Boðið verður upp á ólík námskeið, bæði fyrir byrjendur en einnig lengra komna auk þess að haldið verður sérstakt kvennanámskeið en það er sérstaklega miðað við þær sem styttra eru komnar.
Við hvetjum alla folfara til þess að nýta sér þetta frábæra tækifæri en námskeiðin fara fram 20., 21. og 23. júni og verða bæði í Reykjavík og á Akureyri. Nánari upplýsingar er hægt að finna á www.fuzz.is
Spilað í rigningu
Nú þegar rigning er algengasta veðurform þessa dagana er ágætt að fara yfir það helsta þegar frisbígolf er spilað í bleytu. Bestu spilararnir geta ráðið ágætlega við diskana í rigningu og hér eru nokkur góð ráð:
- Góður regnfatnaður er lykilatriði og derhúfa hentar vel til að skýla andlitinu.
- Veljið diska úr stömu plasti, hægt er að fá diska sem eru með gott grip í bleytu
- Hafið tösku eða poka fyrir diskana til að halda þeim frá bleytunni.
- Takið með nokkrar tuskur til að þurrka af diskunum – þurrkið bara af gripstaðnum.
- Ágætt er að hafa hanska með til að fara í á milli kasta.
Svo er bara að drífa sig út á völl og spila í öllum veðrum.
Allt að gerast…
Nú er að koma einn skemmtilegasti tími ársins fyrir okkur folfara þegar sólin hækkar á lofti og lofthiti eykst verulega. Þá kemur fiðringur í flesta þó að það sé stækkandi hópur sem spilar orðið allt árið. Flestir vellir virðast koma vel undan vetri og því er upplagt að blása rykið af diskunum og drífa sig út. Í sumar bætast 10 nýjir vellir við þá 46 sem fyrir eru og auðvitað er frítt að spila á þeim öllum.
Til viðbótar við þessa nýju velli verður farið í miklar framkvæmdir á tveimur eldri völlum. Að Hömrum við Akureyri verður völlurinn stækkaður í 18 brautir og verður því annar völlurinn á landinu í fullri stærð. Viðbótin tengist gamla vellinum og liggur að hluta inn í Kjarnaskóg sem mun auka fjölbreyttnina og gera völlinn mjög skemmtilegan. Auk þess eru framkvæmdir að hefjast við völlinn í Grafarholti en settir verða heilsárs teigar með gervigrasi á allar brautir sem þýðir að rauðir, hvítir og bláir teigar verða allir jafnvel útbúnir. Auk þessa verða gerðar áhugaverðar breytingar á 7. og 8. braut.
Við vonum að sjá þig út á velli í sumar.
Auðvelt að kaupa diska
Margir eru að kynnast frisbígolfinu þessa dagana og langar að kaupa diska en þeir fást yfirleitt ekki í hefðbundnum íþróttaverslunum. Góðu fréttirnar eru þær að það hefur í raun aldrei verið auðveldara að kaupa diska því tveir aðilar selja frisbígolfvörur og eru með mikið úrval á góðu verði. Þessir aðilar eru:
Frisbígolfbúðin (www.frisbigolf.is) eru með verslun á Nýbýlavegi 8
Fuzz frisbígolfverslun (www.fuzz.is) eru með verslun í Ármúla 19
Opnunartíminn er auglýstur á vefsíðum þeirra en báðir þessir aðilar eru einnig með öfluga vefverslun þar sem hægt er að skoða úrvalið og versla diska og fá þá senda heim.
Veturinn kveður
Nú þegar sól hækkar á lofti eru folfvellirnir að koma í ljós undan snjónum og klakanum. Alltaf stækkar sá hópur sem spilar allt árið og hefur verið gaman að sjá suma spilara spreyta sig í öllum veðrum undanfarna mánuði.
Nú er allavega tækifæri til að byrja að kasta og lengja sumarið þannig um 2-3 mánuði.
Aðalfundur ÍFS
Nú þegar dag fer að lengja er komið að hefðbundnum vorverkum en aðalfundur Íslenska frisbígolfsambandsins verður einmitt haldinn 22. mars næstkomandi í aðstöðu okkar að Þorláksgeisla 51 í Grafarholti og hefst kl. 20. Allir velkomnir.
Vetrarfolf
Frisbígolf hefur marga kosti og er einn af þeim sá möguleiki að spila alla daga ársins, óháð veðri og vindum. Jafnvel í kafasnjó er auðvelt að spila en það í raun stórskemmtilegt en það getur tekið smá tíma að leita að diskunum. Nauðsynlegt er að hafa einhvern sem sér vel hvar diskarnir lenda (svokallaðann spotter) en einnig er hægt að líma á diskana 1-2 metra langan spotta (eins léttan og hægt er) sem límdur er neðan á miðjan diskinn. Ágæt regla er að skilja hvítu diskana eftir heima þegar mikill snjór er. Við hvetjum alla til að prófa áður en snjórinn fer.