Hvað er nú það?
Frisbígolf – skemmtileg almenningsíþrótt
Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf. Í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska. Þessi íþrótt var mótuð á áttunda áratug síðustu aldar og á það sameiginlegt með venjulegu golfi að reynt er að klára hverja holu í sem fæstum köstum. Folfdisknum er kastað frá teigsvæði í átt að skotmarki sem er “holan”. Þessi hola getur verið mismunandi en oftast er um að ræða sérsmíðaðar körfur. Leikmenn taka hvert kast frá þeim stað þar sem diskurinn lenti síðast. Hæðir, hólar, tré o.f.l. sem finna má út um allan völlinn eru leikmönnum áskorun og hindrun í tilraunum þeirra við að koma disknum í körfuna. Loks endar “púttið” í körfunni og þeirri holu er þá lokið. Frisbígolf á sameiginlega gleðina og spennuna sem finna má í hefðbundnu golfi, hvort sem það er við að lenda löngu pútti í holu eða við það að lenda á tré miðja vegu niður flötina. Nokkur atriði eru þó frábrugðin. Hvergi þarf að borga fyrir að spila frisbígolf nema í mesta lagi fyrir diskaleigu. Auk þess þarftu ekki að leigja eða kaupa mikinn búnað.
Mismunandi diskar.
Eins og í flestum íþróttum þá er búið að þróa búnaðinn í gegnum árin og fjölmörg fyrirtæki framleiða diska fyrir frisbígolf. Þannig henta mismunandi diskar ólíkum aðstæðum t.d. þegar fyrirstæður eru í skotlínunni eða í miklum vindi. Í grófum dráttum er hægt að skipta diskum í þrjá flokka; púttera, miðlungsdiska og drivera.
Pútterar eru hægustu diskarnir en nákvæmustu. Þannig er hægt að hitta körfuna af stuttu færi með mikilli nákvæmni því þeir fara beint þ.e. beygja hvorki til vinstri né hægri nema disknum sé hallað.
Miðlungsdiskar (midrange) eru notaðir í flest milliskot þar sem nákvæmnin skiptir meira máli en lengdin. Þessir diskar henta líka vel fyrir byrjendur og er tilvalinn ef spilari á t.d. bara einn disk.
Dræverar (drivers) eru fyrir lengstu skotin en mesta úrvalið er yfirleitt af þessum diskum. Hægt að fá diska sem beygja mikið til hægri, aðra sem beygja mikið til vinstri og einnig diska sem fara mjög beint. Lengstu diskar geta flogið 150-200 metra hjá vönum kösturum.
Hvar er hægt að leika Frisbígolf?
Nú eru fjölmargir staðir á landinu þar sem hægt er að leika Folf. Fyrir utan vellina sem búið er að setja upp þá eru stakar körfur að finna víða. Það var sumarið 2002 sem settur var upp fyrsti 9 holu völlurinn á Úlfljótsvatni með heimasmíðuðum plasttunnum. Þeim var síðan skipt út fyrir alvöru körfur sem eru þar í dag. Í júlí 2003 var settur upp 9 holu völlur í Grafarvogi með alvöru körfum. Hann var síðar stækkaður í 18 holur. Þar er nú stærsti völlur landsins með mjög fjölbreyttum brautum. Þeir sem eiga ekki disk geta jafnvel fengið lánaða/leigða diska á sumum þessum völlum. Í Gufunesi er hægt að fá diska hjá ÍTR (Gufunesbæ), Úlfljótsvatn og Hamrar á Akureyri eiga líka lánsdiska. Upplýsingar um vellina má sjá undir síðunni “VELLIR”.
Hægt er að hafa samband við ÍFS með allar ráðleggingar, hvort sem er um að ræða hönnun valla, staðsetningu, kaup á körfum, útvegun á leikreglum, diskum og kennslu.
Kostirnir við frisbígolf
Lítill kostnaður
Að setja upp og hanna Frisbígolfvöll kostar ekki nema örlítið brot af kostnaði miðað við t.d. fótboltavöll eða leiktækjavöll. ÍFS er ávallt reiðubúið að leggja til þekkingu, tæki og sjálfboðaliða við að hanna og smíða Frisbígolfvöll.
Umhverfisvænt
Við smíði hefðbundinna golfvalla þarf að leggja í miklar landslagsbreytingar með tilheyrandi jarðraski og röskun á gróðri og dýralífi á svæðinu. Frisbígolfvellir nota náttúrulegt umhverfi og ekki er þörf á neinum sérstökum flötum eða sérstökum breytingum á náttúru staðarins. Tré og runnar eru notuð sem náttúrulegar hindranir og eru sjaldan rudd eða söguð vegna hönnunar slíkra valla. Þannig er reynt að láta Frisbígolfvöllinn falla að náttúrunni en ekki öfugt.
Holl hreyfing
Nú þegar allir reyna að hugsa um heilsuna og læknar leggja áherslu á hreyfingu eru æ fleiri að reyna að finna sér líkamsrækt sem ekki er bara vöðvarækt og erfiði heldur líka skemmtun. Þannig aukast ekki aðeins lífslíkur heldur einnig lífsgæði. Folf skerpir neðri og efrihluta líkamans, kallar á góða og holla hreyfingu og eflir líkamlega og hugræna hæfileika án nokkurar hættu á líkamsmeiðslum eða svo kölluðum álagsmeiðslum. Hæfileikinn til einbeitingar eflist til muna við þá áskorun að þróa skottækni og við að komast framhjá hindrunum með skapandi hugsun. Leikmenn sem eru í slakri líkamlegri þjálfun geta auðveldlega byrjað hægt og síðan aukið hæfni sína stig af stigi eftir því sem líkamlegt ástand batnar og eflist. Íþróttinni fylgir útivist, sem mörg okkar óska að ungmenni mættu njóta oftar, af því allir geta leikið Frisbígolf; börn, unglingar og fullorðnir á öllum aldri.