Nú er mikil umræða um þjóðarleikvanga í íþróttum enda vantar bæði handbolta og körfubolta sárlega boðlega aðstöðu fyrir landsleiki í þessum greinum.
Á sama tíma og frisbígolfið hefur hreinlega sprungið út í vinsældum er komin svipuð umræða innan okkar raða því allir vellir eru fullsetnir og okkur vantar því orðið öflugan keppnisvöll þar sem hægt er að halda stór frisbígolfmót, bæði innlend og alþjóðleg, “þjóðarleikvang” eins og svona íþróttaaðsstaða er skilgreind hjá stjórnvöldum.
Þjóðarleikvangur er flottur frisbígolfvöllur með 27 brautum með þremur flottum teigum á hverri braut og því hentugur fyrir alla sem vilja kasta diskum í körfur. Kostnaður við svona völl er ekki mikill í samanburði við aðra íþróttaaðstöðu og má segja að mestu verðmætin liggi í landinu sem færi undir svona völl. Gott gróðri vaxið útivistarsvæði með háum trjágróðri er heppilegt svæði með góðu aðgengi og hæfilegri fjarlægð frá þéttbýli.
Á síðasta ári spiluðu yfir 56 þúsund manns frisbígolf og við teljum því ástæðu til þess að gert verði átak í því að nýr alvöru völlur verði að veruleika, að þjóðarleikvangur í frisbígolfi rísi innan 2-3 ára – við vonum auðvitað að allt sveitarstjórnarfólk skoði málið sem fyrst!