Aðalfundur ÍFS var haldinn þann 11. mars sl. og fór vel fram. Farið var yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2014 en þar bar hæst fjölgun valla úr 7 i 19 og fjöldi móta úr 10 í 25. Samfara þessu varð auðvitað gríðarleg fjölgun spilara og þá sem kynntust þessu dásemdarsporti á árinu. Fleiri vellir eru á döfinni og nú er komin staðfesting á 5 nýjum völlum og annað eins í samþykktarferli.
Mótaskrá fyrir 2015 var kynnt og samþykkt og kemur á næstu dögum hér inn á vefinn. Þar ber helst að Frisbígolfbúðin stendur fyrir Þriðjudagsdeild sem verður vikulega í vor og ef vel tekst til þá verður framhald á henni í sumar. Mánaðarmótin verða áfram en verða flest eftir svokölluðu Texas fyrirkomulagi.
Birgir Ómarsson og Kristinn Arnar Svavarsson voru endurkjörnir í stjórn og mun fulltrúi mótanefndar bætast i stjórnina á næstu vikum. Þorsteinn Óli Valdimarsson óskaði ekki eftir endurkjöri og eru honum þökkuð hans störf á liðnu ári. Mun hann einbeita sér að endurbótum á Gufunesvelli og mögulega stofna fyrsta klúbbinn um þann völl.
Ákveðið var að halda sérstakan fund um Gufunesvöllinn en hann verður haldinn miðvikudaginn 25. mars kl. 20 í Gufunesi. Jón Símon Gíslason mun leiða þá vinnu í samstarfi við stjórn ÍFS.