Flestir vellir miðað við höfðatölu.
Þó að 2020 hafi verið skrýtið ár og margir geti ekki beðið eftir að það klárist þá var þetta mjög gott ár fyrir frisbígolfið. Átta nýir vellir voru byggðir á þessu ári og þeir nýjustu eru í Grímsey, á Þórshöfn, að Ásbrú í Reykjanesbæ og í Grundarfirði og voru settir upp núna á síðustu vikum. Auk þess fengum við nýjan 18 brauta völl í Reykjanesbæ og völlurinn á Selfossi stækkaði i 18 brautir en þeir eru þá orðnir fimm 18 brauta vellirnir á landinu.
Í sumar hafa aldrei fleiri spilað frisbígolf en algjör sprenging varð í vinsældum sportsins í sumar, vinsælustu vellirnir hafa verið þétt setnir og nú má sjá alla aldurshópa af báðum kynjum kasta diskum í allar áttir. Það var metþátttaka á þeim frisbígolfmótum sem við héldum í sumar sem náði hámarki á glæsilegu Íslandsmóti í ágúst en mótið er það langfjölmennasta sem haldið hefur verið hingað til en það var haldið á þremur völlum, Vífilsstaðavelli, Grafarholtsvelli og á Gufunesvelli.
Við lítum bjartsýn til komandi árs en metnaðarfullar áætlanir eru komnar í gang með nýja almenningsvelli, nýjan 27 brauta keppnisvöll, endurbætur á núverandi völlum og glæsilegri mótaskrá – við erum rétt að byrja!