Gleðilegt sumar

Nú er skemmtilegur tími framundan með sól í haga, hækkandi hita og lengri dögum. Við sjáum líka að folfarar flykkjast út og eru byrjaðir að kasta diskum á völlunum. Framundan er vonandi frábært sumar og við hvetjum alla til að kynna sér viðburðadagatalið en yfir 100 viðburðir eru þar um allt land.

Aðalfundur ÍFS

Aðalfundur ÍFS var haldinn 27. mars sl. en á fundinum var farið eftir nýjum lögum sem samþykkt voru fyrir ári síðan sem kveða á um fulltrúalýðræði þ.e. að nú eiga einungis samþykkt frisbígolffélög fulltrúa á fundinum og atkvæðarétt. Skýrsla stjórnar og reikningar voru lögð fram og mótadagskrá ársins kynnt.

Ný stjórn var kosin en í henni sitja Runólfur Helgi Jónasson formaður, Daníel Sigurðsson gjaldkeri, Svandís Halldórsdóttir, Friðrik Snær Sigurgeirsson og Hans Orri Straumland. Hans Orri kemur nýr inn í stjórnina í stað Gunnars Einarssonar sem þökkuð eru góð störf.

Miklar vinsældir frisbígolfs

Við sjáum að ekki dregur úr vinsældum folfsins hér á landi en undanfarin ár hefur Gallup verið með spurningu í lífstílskönnun fyrirtækinsins þar sem spurt er m.a. um hvort viðkomandi hafi farið á frisbígolfvöll á árinu og spilað. Þrátt fyrir leiðindaveður síðasta sumar þá virðast vinsældirnar halda áfram en smá aukning var á milli ára.

Veturinn á síðustu metrunum

Nú styttist í að við kveðjum snjóinn enda dag farið að lengja og margir búnir að dusta rykið af diskunum og viðra þá í góða veðrinu. Gott er að vera vel skóaður enda jarðvegur blautur og drulla víða en þetta stendur allt til bóta með batnandi veðri og hækkandi sól.

Dagur lengist

Eins og flestir hafa tekið eftir þá er dagur farinn að lengjast og mögulegt orðið að spila fram á kvöld. Miklar rigningar og lítið frost gerir okkur erfitt fyrir en mikil bleyta og drulla er á flestum völlum og því er gott að vera vel skóaður til spilamennskunar.

Svona aðstæður sýna vel mikilvægi heilsársteiga og ekki er verra að vera með gúmmímottur í kringum körfur til að verja jarðveginn betur. Nú styttist í vorið og öllum farið að hlakka til að þessi endalausi blauti vetur kveðji.

Vísindi folfdiska

Frisbígolfdiskar líta við fyrstu sýn út eins og venjulegur frisbídiskar, en hönnun þeirra er miklu flóknari. Vísindin á bak við þessa diska margbreytileg og gerir þannig frisbígolf að alvöru íþrótt. Ólíkt venjulegum frisbídisk, sem er hannaður aðallega til að kasta á milli fólks og auðvelt er að kasta, eru frisbígolfdiskar hannaðir til að fylgja ákveðnum flugferlum, hraða og fjarlægðum.

Hver diskur er hannaður með hæfilega blöndu af lögun, þyngd og efni sem ákvarðar hvernig hann flýgur. Kantur disksins (frá brún að miðju), til dæmis, hefur mikil áhrif á loftaflfræði hans. Breiðari kantur gerir diskinn hraðari en erfiðara að stjórna, á meðan mjórri kantur býður upp á meira eftirlit en minni hraða. Þykkt disksins hefur einnig áhrif; þykkari diskar eru oft stöðugri í loftinu og standast betur breytingar á flugi vegna vinds eða annarra þátta.

Plastefnið er annar lykilþáttur. Mismunandi tegundir af plasti bjóða upp á breytilegt grip, endingu og sveigjanleika. Stífari diskur flýgur venjulega hraðar og með meiri stöðugleika, á meðan sveigjanlegri diskur gæti verið þægilegri í hendi en getur verið óstöðugri í flugi.

Þyngd disksins hefur einnig áhrif á flug hans. Léttari diskar eru oft auðveldari að kasta og geta náð meiri lengd með minni fyrirhöfn, en þeir geta verið viðkvæmari fyrir vindi. Þyngri diskar, aftur á móti, veita meiri stöðugleika og stjórn, sérstaklega í vindi, en krefjast meira afli til að kasta vel.

Einn mikilvægasti þátturinn í hönnun disksins er jafnvægið milli lyftikrafts og loftmótstöðu. Lyftikraftur heldur disknum á lofti, á meðan loftmótstaða hægir á honum. Framleiðendur diskanna sameina þessa krafta vandlega með því að breyta lögun disksins, þyngdardreifingu og yfirborðsefni. Markmið þeirra er að búa til disk sem getur haldið fyrirfram ákveðinni flugleið, hvort sem hann er hannaður fyrir langa og beina fluglínu eða skarpa beygju fram hjá hindrun.

Snúningur hefur einnig mikil áhrif. Því hraðar sem diskurinn snýst, því stöðugri verður flug hans. Þess vegna leggja reyndir leikmenn mikla áherslu á grip og tækni þegar disknum er sleppt  – þeir eru ekki bara að kasta disknum, þeir eru að gefa honum rétta snúninginn fyrir þá flugleið sem þeir vilja ná.

Á undanförnum árum hefur tæknin gert vísindin á bak við frisbígolf diska enn fullkomnari. Tölvuhermanir og vindgöngrannsóknir gera framleiðendum kleift að fínstilla hönnun áður en þeir framleiða endanlega frumgerð. Þessi nákvæmni þýðir að diskar dagsins í dag eru sérhæfðari en nokkru sinni fyrr, með valmöguleika fyrir hverja tegund kasts, færni spilara og þær hindranir sem vellirnir bjóða upp á.

Fyrir frisbígolfara getur skilningur á vísindunum á bak við búnaðinn haft mikil áhrif á frammistöðuna. Að velja rétta diskinn fyrir kastið og vita hvernig á að kasta honum – getur gert góðan leik enn betri. Hvort sem þú ert að byrja eða ert vanur spilari þá eykur góður skilningur á flóknum þáttum diskahönnunar getu og ánægju í leikinn.
Greinin er byggð á erlendri grein

Haustfolf er skemmtilegt!

Nú er góður tími til að spila frisbígolf enda allir vellir opnir allt árið. Margir vellir eru komnir með heilsársteiga sem gerir ánægjuna enn betri að spila og við sjáum að þeir vellir eru töluvert vinsælli en aðrir. Hlýr fatnaður og góð húfa er það eina sem þarf og svo bara hugafarið að drífa sig af stað – og taktu vinina með!

Góða skemmtun!